Fótbolti

Ó­skiljan­legur miði Vestra vekur at­hygli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fatai réttir Gustav Kjeldsen miðann sem olli miklum ruglingi innan herbúða Vestra.
Fatai réttir Gustav Kjeldsen miðann sem olli miklum ruglingi innan herbúða Vestra. Vísir/Sýn Sport

Vestri heimsótti Breiðablik í fimmtándu umferð Bestu-deildar karla á laugardaginn þar sem Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu 1-0 sigur. Það voru þó ekki úrslit leiksins sem vöktu helst athygli sérfræðinga Stúkunnar.

Leikur Breiðabliks og Vestra var til umfjöllunnar í Stúkunni í gær þar sem Guðmundur Benediktsson, Baldur Sigurðsson og Bjarni Guðjónsson gerðu upp leiki fimmtándu umferðar.

Um miðbik leiksins ákvað Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, að gera taktíska breytingu. Hann skrifaði breytinguna niður á blað og afhenti Fatai Gbadamosi, leikmanni liðsins, miðann.

Það fór þó ekki betur en svo en að Fatai virtist ekkert skilja í því hvað stæði á miðanum. Við tók þá heldur skondin atburðarrás þar sem miðinn gekk manna á milli í Vestraliðinu um nokkra stund, áður en leikmenn loksins áttuðu sig á því hvaða skilaboðum þjálfarinn væri að reyna að koma til skila.

Guðmundur Benediktsson, stjórnandi Stúkunnar, sagði svo eftir að þeir félagar höfðu horft á klippuna að samkvæmt hans upplýsingum hefði miðinn einfaldlega snúið öfugt þegar Fatai tók við honum.

Þetta skondna atvik má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Vestri skilur ekki miðann frá Davíð



Fleiri fréttir

Sjá meira


×