Fótbolti

Skrifaði undir nýjan samning eftir að hafa verið svo gott sem farinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Morgan Gibbs-White, fer ekki fet. Ekki í bili allavega.
Morgan Gibbs-White, fer ekki fet. Ekki í bili allavega. Catherine Ivill - AMA/Getty Images

Morgan Gibbs-White, leikmaður Nottingham Forest, skrifaði í gær undir nýjan samning við félagið.

Þrátt fyrir að rúmlega mánuður sé í að félagsskiptaglugginn í stærstu deildum heims loki er ein furðulegasta saga gluggans nú þegar komin í dagsljósið.

Morgan Gibbs-White var svo gott sem orðinn nýr leikmaður Tottenham Hotspur, en hann hefur nú framlengt samningi sínum við Nottingham Forest.

Tottenham virkjaði klásúlu í samningi Gibbs-White við Nottingham Forest sem gerði Lundúnaliðinu kleift að kaupa leikmanninn. Samningaviðræður voru komnar það langt á veg að félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano var búinn að segja „Here we go!“ sem hingað til hefur þýtt að félagsskiptin verða staðfest innan skamms.

Í þetta skipti varð hins vegar ekkert úr félagsskiptunum. Forráðamenn Nottingham Forest voru allt annað en sáttir við framgang Tottenham og íhuguðu að kæra málið.

Forest-menn héldu því fram að maðkur hefði verið í mysunni og að forráðamenn Tottenham hafi talað við leikmanninn án leyfis.

Eitthvað hefur þessi taktík Nottingham Forest virkað því nú er það orðið ljóst að Gibbs-White er ekki á leið til Tottenham. Raunar er hann ekki að fara fet því hann hefur nú skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Forest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×