Fótbolti

Ronaldo sagður hafa hótað að siga lög­reglunni á börnin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fær lítinn sem engan frið út á almannafæri en stundum gengur fólk alltof langt.
Cristiano Ronaldo fær lítinn sem engan frið út á almannafæri en stundum gengur fólk alltof langt. Getty/Pau Barrena

Portúgalska stórstjarnan Cristiano Ronaldo er á ferðinni í æfingaferð með sádi-arabíska liði sínu í Ölpunum og koma hans til Austurríkis hefur ekki farið framhjá ungum heimamönnum.

Börn og aðrir líka hafa fjölmennt að hótelinu sem Al Nassr gistir á. Fullt af fjölskyldum fengu sér sem dæmi herbergi á hótelinu á laugardaginn til að komast nær goðinu. Kronen Zeitung segir frá því að hundruð barna hafi safnast saman á hótelinu.

Þetta varð samt fyrst vandamál þegar þessi áhugasömu, forvitnu og æstu börn tóku upp á því að banka á dyrnar á herbergi Ronaldo. Allir vildu hitta hann, fá eiginhandaráritun og jafnvel mynd líka. Hann fékk engan frið ekki einu sinni á herbergi sínu.

Ronaldo er sagður hafa brugðist mjög illa við því þegar börnin bönkuðu á dyr hótelherbergisins hans og hann er sagður hafa hótað börnunum því að hringja í lögregluna.

Austurrískir fjölmiðlar segja frá því að Ronaldo sé með sextán lífverði með sér og að hótelið hafi einnig aukið öryggisgæslu sína. Þrátt fyrir það varð allt vitlaust í æsingnum því allir vildu hitta markahæsta leikmann allra tíma.

„Þegar börnin komu inn á hótelið þá voru við ekki nægilega vel staðsettir,“ sagði öryggisvörður við Kronen Zeitung. Það lítur út að menn hafi aðeins sofnað á verðinum.

„Ef þeir [Al Nassr] koma aftur á næsta ári þá verðum við að taka allt öðruvísi á þessu. Margir halda að það sé í fínu lagi að biðja um eiginhandaráritun frá eða mynd af sér með Ronaldo bara af því að þú gistir á sama hóteli og hann. Það er ekki svo,“ sagði öryggisvörðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×