Innlent

Lög­reglan leitar þessara manna

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hér er myndin sem um ræðir.
Hér er myndin sem um ræðir. LRH

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir að ná tali af fjórum mönnum sem sjást á myndinni sem er hér að ofan vegna máls sem er til rannsóknar hjá embættinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Mennirnir eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444 1000.

„Ef einhverjir þekkja til mannanna, eða vita hvar þá er að finna, eru hinir sömu einnig vinsamlegast beðnir um að hringja í lögregluna, en upplýsingum má jafnframt koma á framfæri í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is eða 0803@lrh.is“

Í vikunni var hundruð lítrum af olíu stolið úr flutningabílum flutningafyrirtækisins Fraktlausna um miðja nótt. Myndin sem lögreglan birtir virðist tekin í kringum vörubíla, nánar tiltekið virðist vera um nákvæmlega sama vettvang að ræða og náðist á upptöku af stuldinum hjá Fraktlausnum.

Haft hefur verið eftir lögreglunni að stuldur sem þessi hafi færst í aukana í sumar.

Arnar Þór Ólafsson, framkvæmdastjóri Fraktlausna, sagði við fréttastofu að hann teldi að höfuðborgarsvæðið væri fullt af bílum stútfullum af stolnum bensín- og olíubrúsum. Fjölmörg önnur fyrirtæki en Fraktlausnir hafi lent í viðlíka þjófnaði.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Bílar fullir af bensínbrúsum séu úti um alla borg

Hundruðum lítra af díselolíu fyrir milljónir króna hefur verið stolið frá flutningafyrirtæki í borginni. Framkvæmdastjóri segist telja höfuðborgarsvæðið fullt af bílum stútfullum af stolnum bensín- og olíubrúsum, fjölmörg önnur fyrirtæki hafi lent í viðlíka þjófnaði. Lögregla náði þjófi í slíkum erindagjörðum glóðvolgum í Bústaðahverfi í nótt.

Langþreyttur á bensínbrúsum og „bílakirkjugarði“

Sóknarprestur í Seljakirkju í Reykjavík er langþreyttur á bílum sem eru skildir eftir á bílaplani við kirkjuna og eru gjarnan fullir af bensínbrúsum. Ekki er um að ræða eina dæmið um slíka bíla en á sama tíma hefur mikið borið á olíustuldi á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafa fjórir bílar verið fjarlægðir af planinu undanfarinn mánuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×