Fótbolti

Ís­lendingalið Brann úr leik líkt og Guð­mundur sem lagði þó upp

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Freyr og lærisveinar hans eru úr leik.
Freyr og lærisveinar hans eru úr leik. Isosport/Getty Images

Eftir 4-1 tap í Bergen áttu lærisveinar Freys Alexanderssonar litla möguleika fyrir síðari leik sinn gegn Red Bull Salzburg í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Guðmundur Þórarinsson var í byrjunarliði Noah frá Armeníu og lagði upp eitt marka liðsins þegar það féll úr leik.

Sævar Atli Magnússon skoraði eina mark Brann í fyrri leiknum og var í byrjunarliðinu í kvöld. Það var Eggert Aron Guðmundsson einnig. Lærisveinar Freys gátu vart byrjað betur og komust yfir á þriðju mínútu en heimamenn drápu allar vonir um endurkomu með jöfnunarmarki nokkrum mínútum síðar.

Staðan orðin 1-1 þegar sex mínútur voru liðnar. Þannig var hún enn bæði þegar flautað var til hálfleiks sem og leiksloka. Sævar Atli nældi sér í gult spjald í síðari hálfleik áður en hann var tekinn af velli. Eggert Aron lék allan leikinn.

Sævar Atli kallar ekki allt ömmu sína.Alex Nicodim/Getty Images

Brann fer nú í forkeppni Evrópudeildarinnar. Þar bíður annað hvort stórlið Anderlecht eða Häcken frá Svíþjóð. Það ræðst á morgun hvort þeirra fer áfram en Anderlecht vann fyrri leik liðanna 1-0.

Guðmundur hóf leikinn í vinstri bakverði Noah þegar liðið sótti ungverska liðið Ferencvárosi heim. Guðmundur nældi sér í gult spjald áður en hann lagði upp þriðja mark Noah í leiknum á 71. mínútu.

Staðan þá 3-3 en heimamenn í Ferencvárosi fóru með sigur af hólmi, lokatölur 4-3. Guðmundur var tekinn af velli á 84. mínútu. Þar sem Ferencvárosi vann fyrri leikinn 2-1 vann ungverska liðið einvígið 6-4 samanlagt.

Arnór Sigurðsson kom inn af bekknum á 69. mínútu í 1-0 sigri Malmö á RFS. Malmö hafði unnið fyrri leikinn 4-1 og vann því einvígið 5-1 samanlagt. Daníel Tristan Guðjohnsen sat allan tímann á varamannabekknum hjá Malmö. Sænska félagið mætir FC Kaupmannahöfn í næstu umferð undankeppninnar.

Sverrir Ingi Ingason sat allan tímann á varamannabekk Panathinaikos sem gerði 1-1 jafntefli við Rangers. Fyrri leiknum lauk með 2-0 sigri Rangers sem er því komið áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×