Innlent

Á­hrifin af stöðvunarkröfunni ó­veru­leg

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Jóhann Páll Jóhannsson reiknar með að umsókn Landsviekjunar um heimild til bráðabirgðavirkjunarleyfis verði afgreidd eftir helgi. 
Jóhann Páll Jóhannsson reiknar með að umsókn Landsviekjunar um heimild til bráðabirgðavirkjunarleyfis verði afgreidd eftir helgi.  Vísir/Anton Brink

Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis- orku og loftslagsráðherra reiknar með að virkjunarframkvæmdir við Hvammsvirkjun haldi áfram innan tíðar. Hann segir áhrifin af úrskurði umhverfis- og auðlindamála óveruleg.

Úrksurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála féllst í gær á kröfu landeigenda við Þjórsá um að stöðva virkjunarframkvæmdir tímabundið. Úrskurðurinn er til bráðabirgða og lýtur ekki að framkvæmdum við nýjan veg og framkvæmdum að vinnubúðum á svæðinu. 

Í Facebookfærslu segir Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis- orku og loftslagsráðherra úrskurðinn fyrirsjáanlega afleiðingu dóms Hæstaréttar, sem staðfesti ógildingu virkjunarleyfisins í júlí. 

Áhrifin af honum verði aftur á móti óveruleg, þar sem búið sé að breyta þeim atriðum í lögum sem virkjunarleyfið strandaði á og setja inn heimild til veitingar bráðabirgðavirkjunarleyfis sem Landsvirkjun hafi þegar sótt um.

Að óbreyttu megi gera ráð fyrir að sú umsókn verði afgreidd hjá Umhverfis- og orkustofnun rétt eftir verslunarmannahelgi. Í beinu framhaldi ætti Rangárþing ytra að geta heimilað áframhaldandi virkjunarframkvæmdir, umfram þær sem lúta að uppsetningu vinnubúða og frágangi vegar. 

„Framkvæmdir munu halda áfram af fullum þunga og Hvammsvirkjun verður að veruleika,“ skrifar Jóhann Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×