Erlent

Freista þess að hindra að Banda­ríkin fargi miklu magni getnaðar­varna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ákvörðun stjórnvalda vestanhafs um að leggja niður USAID hefur þegar haft veruleg áhrif á þá sem hafa reitt sig á aðstoð stofnunarinnar.
Ákvörðun stjórnvalda vestanhafs um að leggja niður USAID hefur þegar haft veruleg áhrif á þá sem hafa reitt sig á aðstoð stofnunarinnar. Getty/Michel Lunanga

Stjórnvöld í Frakklandi segjast fylgjast náið með þróun mála varðandi birgðir af getnaðarvörnum sem eru sagðar á leið til landsins til brennslu.

Um er að ræða birgðir bandarísku hjálparstofnunarinnar USAID, sem ríkisstjórn Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur lagt niður. 

Getnaðarvörnunum, sem eru sagðar hafa verið í geymslu í Belgíu, hefði líkleg verið dreift í Afríku en talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði í samtali við AFP í vikunni að ákvörðun hefði verið tekin um að farga þeim.

Innihald birgðanna liggur ekki ljóst fyrir en samkvæmt talsmanninum er ekki um að ræða smokka né lyf gegn HIV. Hann sagði förgunina myndu kosta um það bil 167 þúsund dollara en birgðirnar eru metnar á 9,7 milljónir dollara.

Ýmis baráttusamtök hafa hvatt stjórnvöld í Belgíu og Frakklandi til að koma í veg fyrir að birgðunum verði fargað. Greint hefur verið frá því að það hafi staðið til að flytja þær frá Geel í Belgíu til Frakklands í brennslu en þetta hefur ekki fengist staðfest af yfirvöldum í Frakklandi.

Stjórnvöld þar í landi segjast hins vegar fylgjast vel með þróun mála og að þau muni vinna með Belgum að því að koma í veg fyrir að getnaðarvörnunum verði eytt. Kynheilbrigði og réttur fólks til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um barneignir séu meðal forgangsmála í utanríkisstefnu Frakka.

Alþjóðasamtökin MSI Reproductive Choices og The International Planned Parenthood Federation hafa boðist til þess að kaupa, endurpakka og dreifa getnaðarvörnunum en báðum hefur verið hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×