Innlent

Blóð­bankinn á leið í Kringluna

Atli Ísleifsson skrifar
Til stendur að flytja Blóðbankann á fimmtu hæð Stóra turns í Kringlunni.
Til stendur að flytja Blóðbankann á fimmtu hæð Stóra turns í Kringlunni. Vísir/Vilhelm

Til stendur að flytja starfsemi Blóðbankans í svokallaðan Stóra turn í Kringlunni þar til að framtíðarhúsnæði bankans í rannsóknarhúsi nýja Landspítalans verður tilbúið.

Fram kemur í fundargerð byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá í lok júlí að Blóðbankinn verði á fimmtu hæð turnsins, en málið sé háð samþykki heilbrigðiseftirlits og lokaúttekt byggingarfulltrúa.

Þorbjörn Jónsson, yfirlæknir Blóðbanka- og ónæmisfræðiþjónustu Landspítala, segir í samtali við Morgunblaðið að ekki sé ljóst hvenær af flutningnum verður. Hann segir að Kringlan sé mun aðgengilegri en húsnæði Blóðbankans við Snorrabraut þar sem hann hefur verið til húsa síðustu ár. Áður var Blóðbankinn staðsettur í húsi á horni Barónstígs og Eiríksgötu.

Þorbjörn segir að bílastæðum hafi fækkað við Snorrabraut á síðustu árum og þá sé sýnileiki Blóðbankans lítill. Hann vonast til að með flutningi Blóðbankans í Kringluna mun tími blóðgjafa einnig nýtast betur.

Blóðbankinn er sömuleiðis með starfstöðvar á Glerártorgi á Akureyri og í Blóðbankabílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×