Erlent

Á­kæra stjórn­endur flutninga­skips vegna skemmda á sæ­streng

Kjartan Kjartansson skrifar
Olíuflutningaskipið Eagle S við akkeri nærri Porvoo í Finnlandi eftir að skipið skemmdi sæstrengi í Eistrasalti síðasta vetur.
Olíuflutningaskipið Eagle S við akkeri nærri Porvoo í Finnlandi eftir að skipið skemmdi sæstrengi í Eistrasalti síðasta vetur. AP/Jussi Nukari/Lehtikuva

Finnsk yfirvöld hafa ákært skipstjóra flutningaskips og tvo næstráðendur hans vegna skemmda sem þeir ollu á sæstreng í Eystrasalti á milli Finnlands og Eistlands í fyrra. Skipið er sagt hluti af svonefndum skuggaflota Rússa og skemmdarverkum þeirra í Evrópu.

Skipsstjórnendurnir eru sakaðir um að hafa skorið á fimm sæstrengi með því að draga akkeri skipsins eftir hafsbotninum um níutíu kílómetra leið. Þeir skemmdu þannig Estlink-2 rafsæstrenginn og fjarskiptastrengi sem þúsundir Evrópubúa reiða sig á, að sögn AP-fréttastofunnar.

Olíuflutningaskipið Eagle S er skráð á Cook-eyjum. Það er sagt hafa látið úr höfn með farm af olíu í Ust-Luga í Rússlandi áður en það skar á strengina í Finnlandsflóa á jóladag. Finnsk yfirvöld og Evrópusambandið telja skipið hluta af skuggaflota Rússa sem þeir nota til þess að komast í kringum refsiaðgerðir vestrænna ríkja vegna stríðsins í Úkraínu.

Þremenningarnir eru ákærðir fyrir eignaspjöll og truflanir á fjarskiptum. Með þeim hafi þeir valdið eigendum strengjanna tjóni sem sé metið á að minnsta kosti sextíu milljónir evra, jafnvirði um 8,6 milljarða íslenskra króna. Sakborningarnir eru sagðir neita sök og hafna því að Finnar hafi lögsögu yfir þeim því skemmdirnar hafi orðið utan landhelgi Finnlands.

Estlink 2-sæstrengurinn getur annað um helmingi af raforkuþörf Eistlands yfir vetrarmánuðina. Skemmdirnar á honum ollu ekki rafmagnsleysi en raforkuverð hækkaði vegna þeirra.

Rússar hafa ítrekað verið sakaðir um að valda skemmdum á sæstrengjum í Eystrasalti á undanförnum misserum. Þá hafa þeir truflað staðsetningartæki og fjarskipti við Finnland sem hefur haft áhrif á flugsamgöngur þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×