Enski boltinn

Stuðnings­menn Chelsea bjartsýnastir en mjög svart­sýnir hjá Newcastle

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er mikil bjartsýni í herbúðum Chelsea og meðal stuðningsmanna félagsins eftir frábært sumar.
Það er mikil bjartsýni í herbúðum Chelsea og meðal stuðningsmanna félagsins eftir frábært sumar. EPA/JUSTIN LANE

Enska úrvalsdeildin í fótbolta hefst á föstudagskvöldið og það er mikil spenna hjá knattspyrnuáhugafólki eftir mikla sviptingar á leikmannamarkaðnum í sumar.

The Athletic gerði skemmtilega könnun meðal stuðningsmanna félaganna tuttugu í ensku úrvalsdeildinni fyrir tímabilið.

Kannað var hvort stuðningsfólkið væri bjartsýnt eða svartsýnt fyrir komandi leiktíð.

Chelsea varð heimsmeistari félagsliða í sumar og á Brúnni er bjartsýnin í hæstu hæðum meðal stuðningsmanna.

Alls voru 98 prósent stuðningsmanna Chelsea bjartsýnir fyrir tímabilið eða einu prósenti meira en stuðningsmenn Englandsmeistara Liverpool en 97 prósent þeirra eru bjartsýnir.

Það er yfir níutíu prósent stuðningsmanna bjartsýnir hjá bæði Brighton og Sunderland.

Manchester liðin eru síðan með 86 prósent (United) og 85 prósent (City) bjartsýni meðal stuðningsmanna.

Arsenal hefur styrkt sig mikið í sumar en það skilar þó bara 84 prósent bjartsýni meðal stuðningsmanna sem hafa þurft að sætta sig við annað sætið á þremur tímabilum í röð.

Þetta hefur aftur á móti verið afar erfitt sumar fyrir stuðningsmenn Newcastle þrátt fyrir fyrsta bikarinn í meira en fimmtíu ár.

Aðeins nítján prósent stuðningsmanna Newcastle eru bjartsýnir á tímabilið sem þýðir jafnframt að 81 prósent þeirra eru svartsýnir.

Úlfarnir eru næstir fyrir ofan en þó eru munu fleiri bjartsýnir eða 32 prósent. Þar fyrir ofan eru West Ham (39 prósent) og Fulham (44 prósent).

Hjá alls fimm félögum er meira en helmingur stuðningsmanna svartsýnir því fleiri stuðningsmenn Bournemouth eru líka svartsýnir en bjartsýnir enda er liðið búið að selja margar stjörnur í í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×