Enski boltinn

Rashford segir Man. United fast í einskis­manns­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik fyrir Manchester United á meðan Ruben Amorim er knattspyrnustjóri.
Marcus Rashford hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik fyrir Manchester United á meðan Ruben Amorim er knattspyrnustjóri. EPA/PETER POWELL

Marcus Rashford gagnrýnir áætlun Manchester United sem félags en hann telur að hún snúist frekar um að bregðast við í stað þessa að skipuleggja sig frá grunni.

Rashford segir að allt frá því að Sir Alex Ferguson hætti hafi félagið tekið allt of seint á málum. Sjö knattspyrnustjórar hafa sest í stól Sir Alex síðan en engum hefur tekist að gera United að meisturum.

Ruben Amorim tók nú síðast við af Erik Ten Hag í nóvember í fyrra og Rashford var fljótlega kominn út í kuldann hjá honum.

Rashford hefur verið hjá United síðan hann var sjö ára gamall. United lánaði hann til Aston Villa eftir áramót og nú er hann kominn á láni til Barcelona. Marcus Rashford hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik fyrir Manchester United á meðan Amorim er knattspyrnustjóri.

„Þegar Ferguson réði ríkjum þá voru ekki aðeins lögmál sem giltu hjá aðalliðinu heldur voru þau í gildi fyrir alla akademíuna líka,“ sagði Marcus Rashford í Rest is Football hlaðvarpinu.

„Þá gat stjórinn valið leikmenn upp úr yngri liðunum sem skildu fullkomlega hvað það var að spila Manchester United fótboltann,“ sagði Rashford.

„Fólk segir segir að félagið hafi verið á breytingaskeiði til fjölda ára. Til vera að á breytingaskeiði þá þarftu að byrja á því að breyta einhverju. Breytingaskeiðið er því ekki byrjað ennþá,“ sagði Rashford.

„Þú sérð það hjá öllum félögum sem hafa náð góðum árangri á vissum tímum. Þau fylgja lögmálum sem stjórinn eða þeir leikmenn sem koma inn þurfa að aðlaga sig að. Þeir þurfa að aðlagast en geta svo bætt eitthvað við þau líka,“ sagði Rashford.

„Mér finnst við hjá United vissulega vera hungraðir í að vinna. Við erum að reyna að aðlagast og kaupa leikmenn sem passa inn í kerfið. Við erum samt bara alltaf að bregðast við,“ sagði Rashford.

„Ef það er alltaf verið að breyta hlutum þá er ekki hægt að ætlast til þess að við vinnum deildina. Þú vinnur kannski einhverjar bikarkeppnir en það er af því að þú ert með góðan stjóra eða góða leikmenn. Þú ert með sigurvegara í þínu liði,“ sagði Rashford.

„Mér finnst við vera búnir að vera með svo marga stjóra, með svo mismunandi hugmyndir og svo mismunandi leikskipulag. Fyrir vikið endar þú í miðjumoði, þú endar í einskismannslandi,“ sagði Rashford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×