Innlent

Notuðu gröfu til að brjótast inn í hrað­banka

Lovísa Arnardóttir, Atli Ísleifsson og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Skemmdirnar eru verulegar á húsnæðinu í Þverholti í Mosfellsbæ.
Skemmdirnar eru verulegar á húsnæðinu í Þverholti í Mosfellsbæ. Vísir/Anton Brink

Þjófar stálu hraðbanka Íslandsbanka og milljónum sem í honum voru þegar þeir brutust inn í hraðbankaútibú Íslandsbanka í nótt. Hraðbankinn var staðsettur við bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar í Þverholti í Mosfellsbæ. Fleiri en einn er grunaður um þjófnaðinn samkvæmt lögreglu og er grunur um að grafan sem var notuð við þjófnaðinn hafi verið tekin á byggingarsvæði á Blikastaðalandi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur málið til rannsóknar. Enginn hefur verið handtekinn og ekki eru til upptökur af þjófnaðinum. Hildur Rún Björnsdóttir lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á Vínlandsleið staðfestir að þjófnaðurinn hafi átt sér stað um klukkan fjögur í nótt.

Hér má sjá það sem eftir er af hraðbankanum. Vísir/Anton Brink

Hildur staðfestir að grafa hafi verið notuð til að brjótast inn í hraðbankann. Ekki eru til upptökur af þjófnaðinum að hennar sögn. Bæjarskrifstofurnar eru eins og áður sagði í húsnæðinu og hún segir húsnæðið ekki það skemmt að ekki sé hægt að vinna þar.

Þjófunum tókst samkvæmt svörum frá Íslandsbanka að taka hraðbankann og tókst þannig að stela milljónum sem voru í honum. 

Hér var hraðbankinn áður en honum var stolið. Vísir/Anton Brink
Hraðbankinn borinn út. Vísir/Anton Brink

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir í samtali við fréttastofu að aðkoman hafi ekki verið skemmtileg þegar hún mætti á vettvang í morgun. „Þetta er þarna fyrir framan bókasafnið og ömurlegt á að líta.“

Regína segir að málið hafi ekki áhrif á daglega starfsemi bæjarskrifstofunnar sem slíkrar en að hraðbankinn hafi verið í húsnæði sem hún deili með öðrum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×