Erlent

Segist vilja komast til himna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Forsetinn sagðist eitt sinn vera viss um að móðir sín væri á himnum en hann væri ekki alveg jafn viss um föður sinn.
Forsetinn sagðist eitt sinn vera viss um að móðir sín væri á himnum en hann væri ekki alveg jafn viss um föður sinn. Getty/Christopher Furlong

„Mig langar að komast til himna, ef það er mögulegt,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti í símaspjalli við stjórnendur morgunþáttarins Fox & Friends í gærmorgun.

Trump var að ræða ástæður þess að hann vildi freista þess að binda enda á stríðið í Úkraínu þegar hann lét ummælin falla. Hann sagði engan Bandaríkjamann hafa fallið í átökunum en hermenn Úkraínu og Rússlands væru að deyja og almennir borgarar í árásum á borgir og þorp.

Ef hann gæti bjargað sjö þúsund manns á viku, þá ætti hann ef til vill möguleika á því að komast til himna.

„Ég heyri að mér gangi ekki svo vel. Ég er neðst á listanum,“ sagði Trump um líkurnar á því að komast í gegnum gullna hliðið. „En ef ég kemst til himna, þá verður þetta ein af ástæðunum,“ bætti hann við.

Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Trump, var spurð að því seinna um daginn hvort forsetanum hefði verið alvara þarna í morgunsárið. Var hann að grínast eða væru hugleiðingar um eftirlífið einn af þeim þáttum sem knúðu hann til að miðla málum milli stríðandi fylkinga.

„Ég held að forsetanum hafi verið alvara,“ svaraði Leavitt. „Ég held að forsetinn vilji komast til himnaríkis, eins og við öll í þessum sal vona ég.“

Trump er ekki þekktur fyrir að bera sálu sína en var sagður hafa verið nokkuð brugðið þegar tilraun var gerð til að ráða hann af dögum í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra. 

Um áminninguna um það að vera að eldast sagði forsetinn þegar hann varð 78 ára: „Það kemur að þeim tímapunkti að þú vilt ekki heyra „Til hamingju með afmælið“.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×