Skoðun

„I believe the children are our future…“

Karen Rúnarsdóttir skrifar

Ég er mikil Whitney Houston kona. Eitt af uppáhalds lögunum mínum með henni er „Greatest Love of All“ – þar sem hún syngur: “I believe the children are our future.“ Ég mun aldrei geta sungið eins og Whitney en ég get heilshugar tekið undir skilaboðin í laginu.

Sem foreldri þriggja barna, þar af tveggja í grunnskóla í Kópavogi, fagna ég því að bærinn ætlar að taka skref til að efla menntun barnanna okkar. Hugmyndin um samræmt stöðumat frá fjórða til tíunda bekk er að mínu mati jákvætt og tímabært skref sem getur hjálpað öllum – nemendum, foreldrum og skólunum– að fá skýrari mynd af stöðu og árangri.

Með samræmdu mati fáum við bæði yfirsýn og möguleika til að bregðast við með viðeigandi hætti. Það gerir okkur kleift að styðja börnin þar sem þau þurfa á því að halda og fagna því sem vel gengur- læra af því og miðla áfram aðferðum sem skila góðum árangri.

Það sem skiptir mestu máli er að við horfum á þetta sem samstarfsverkefni. Foreldrar, skólarnir og samfélagið allt deila sameiginlegu markmiði: að börnin okkar fái besta mögulega grunn til framtíðar. Þegar við vinnum saman verður árangurinn meiri.

Ég trúi því, líkt og Whitney söng svo fallega, að börnin séu framtíðin. Með þessum nýju aðgerðum í Kópavogi erum við að taka skref í þá átt að tryggja að sú framtíð verði björt og full af tækifærum.

Höfundur er formaður SAMKÓP.




Skoðun

Sjá meira


×