Enski boltinn

Onana með í dag en Man. Utd að landa mark­verði

Sindri Sverrisson skrifar
Senne Lammens virðist vera á leiðinni á Old Trafford.
Senne Lammens virðist vera á leiðinni á Old Trafford. Getty/Joris Verwijst

Belgíski markvörðurinn Senne Lammens er ekki í leikmannahópi Antwerpen í dag og nú er útlit fyrir að hann gangi í raðir Manchester United. Í hinum hluta Manchester-borgar færast City-menn nær því að klófesta Gianluigi Donnarumma.

The Guardian segir að talið sé að United muni greiða 17 milljónir punda fyrir hinn 23 ára gamla Lammens.

Ef ekki væri fyrir áhuga United þá hefði markvörðurinn eflaust spilað með Antwerpen gegn Mechelen nú í hádeginu, í belgísku úrvalsdeildinni, en hann er ekki í leikmannahópnum.

The Guardian segir að Ruben Amorim vilji fá Lammens til að veita Andre Onana samkeppni um aðalmarkvarðarstöðuna.

Onana sé hins vegar í leikmannahópnum sem mæti Fulham í dag eftir að hafa ekki verið í hópnum í fyrsta leik, þegar United tapaði 1-0 gegn Arsenal. Ekki sé þó víst að hann byrji leikinn.

Tyrkinn Altay Bayindir stóð í marki United gegn Arsenal en gerði afar slæm mistök í sigurmarki Riccardo Calafiori.

The Guardian segir að Onana búist við því að vera áfram hjá United í vetur, því félagið hafi sagt honum frá því að það hafi hafnað tilboðum, en nú mun hann þurfa að glíma við aukna samkeppni frá Lammens.

Donnarumma klár í að fara til City

Belginn kom inn í aðallið Club Brugge árið 2021 og gekk svo í raðir Antwerpen fyrir tveimur árum. Hans fyrsti leikur þar var í 2-0 sigri gegn Porto í nóvember 2023, í Meistaradeild Evrópu.

Lammens hefur leikið með yngri landsliðum Belgíu og var valinn í A-landsliðshópinn fyrir leiki í umspili Þjóðadeildarinnar í mars síðastliðnum.

Donnarumma hefur áður verið orðaður við United en samkvæmt Fabrizio Romano hefur hann nú náð samkomulagi við City um kaup og kjör. City og PSG þurfa nú að komast að samkomulagi um kaupverð en kaupin velta á því að City takist að selja Éderson sem er í sigti Galatasaray.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×