Enski boltinn

Botna lítið í Amorim: „Hann er ein taugahrúga“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim á hliðarlínunni á Craven Cottage.
Ruben Amorim á hliðarlínunni á Craven Cottage. getty/Marc Atkins

Sérfræðingar Sunnudagsmessunnar botna lítið í sumum ákvörðunum Rubens Amorim, knattspyrnustjóra Manchester United, eins og að nota Altay Bayindir í marki liðsins í stað Andrés Onana.

United gerði 1-1 jafntefli við Fulham á Craven Cottage í gær. Rauðu djöflarnir eru með eitt stig eftir fyrstu tvo leiki sína í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Bayindir stóð á milli stanganna hjá United annan leikinn í röð og var verulega óöruggur í föstum leikatriðum, líkt og í tapinu fyrir Arsenal í síðustu viku.

„Ég skil ekki Amorim. Er hann svona öruggur í starfi að hann er bara að taka sénsa með Bayindir. Hann veit alveg að Onana er betri markmaðurinn,“ sagði Albert Brynjar Ingason í Messunni í gær.

„Amorim er með sjö sigra í 29 leikjum með United. Þrír af þeim komu gegn nýliðunum sem féllu í fyrra. Það er ótrúlegt að United hafi ekki fengið á sig mark úr föstum leikatriðum í dag [í gær] eftir eitthvað af þessum mistökum sem Bayindir gerði. Hann hlýtur klárlega að vera að reyna að bola Onana út með þessu en það er stór áhætta og ég furða mig á því.“

Klippa: Sunnudagsmessan - Umræða um Amorim

Alberti og Ásgerði Stefaníu Baldursdóttur finnst eins og pressan sé farin að ná tökum á Amorim.

„Þegar hann var ráðinn var mikið talað um að [Erik] ten Hag hafi ekki heillað stuðningsmenn United utan vallar og eftir leiki; það vantaði ákveðið svægi í hann. Það var mikið talað um áru hjá Amorim. Hann virkar utan vallar eins og hann sé ógeðslega stressaður,“ sagði Albert.

„Mér finnst hann ein taugahrúga. Hann gat ekki horft á vítið þegar Bruno [Fernandes] var að fara að taka það,“ sagði Adda en Fernandes skaut yfir úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik.

Öddu finnst Amorim hafa sloppið nokkuð billega við gagnrýni miðað við slakan árangur hans í starfi stjóra United en segir að pressan á hann sé farin að aukast.

„Já, ekki nema það sé algjörlega nýtt dæmi hjá United. Þegar þú ert stjóri hjá United er alltaf pressa á þér. Mér fannst skrítið hvað hann fékk mikinn slaka í fyrra. Í öllum viðtölum, það var sama hvað hann sagði, hann var aldrei tekinn,“ sagði Adda.

„Hann kemur inn og hann ætlar að spila þetta leikkerfi, 3-4-3, sama hvað. Tilfininningin hjá mér er sama hversu mörgum góðum leikmönnum er búið að hrúga inn er þetta ekki að virka.“

Næsti leikur United er gegn nýliðum Burnley á Old Trafford á laugardaginn.

Innslagið úr Sunnudagsmessunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×