Fótbolti

For­eldrum Bellinghams bannað að koma í klefann hjá Dortmund

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Foreldrar Bellingham-bræðranna.
Foreldrar Bellingham-bræðranna. getty/Stefan Matzke

Búið er að banna foreldrum leikmanna Borussia Dortmund að koma inn í búningsklefa liðsins eftir að ósáttir foreldrar Jobes Bellingham reyndu að ræða við forráðamenn liðsins eftir leikinn gegn St. Pauli á laugardaginn.

Dortmud missti niður tveggja marka forskot gegn St. Pauli í 1. umferð þýsku úrvalsdeildarinnar í fyrradag og varð að sætta sig við 3-3 jafntefli.

Bellingham var í byrjunarliði Dortmund en var tekinn af velli í hálfleik. Foreldrar hans, Mark og Denise, höfðu engan húmor fyrir því og eftir leikinn biðu þau eftir forráðamönnum Dortmund í leikmannagöngunum og vildu fá skýringar af hverju strákurinn var tekinn af velli. Mark talaði við íþróttastjórann Sebastian Kehl, ekki beint á rólegu nótunum, og óskaði svo eftir fundi með knattspyrnustjóranum Niko Kovac.

Lars Ricken, framkvæmdastjóri Dortmund, vildi ekki gera mikið úr uppákomunni eftir leikinn gegn St. Pauli en sagði að framvegis yrði foreldrum leikmanna meinað að fara inn í klefa liðsins.

Dortmund keypti Bellingham frá Sunderland fyrir 32 milljónir punda í sumar. Eldri bróðir hans, Jude, lék með Dortmund á árunum 2020-23 en var svo seldur til Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×