Erlent

Biður græn­lenskar konur af­sökunar vegna „lykkjumálsins“

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. EPA

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur fyrir hönd danska ríkisins beðið grænlenskar konur, sem fengu lykkjur settar upp í sig á síðustu öld, opinberlega afsökunar.

Frederiksen greindi frá þessu í morgun. „Við getum ekki breytt þessu. En við getum axlað ábyrgð. Þess vegna vil ég gjarnan, fyrir hönd Danmerkur, biðjast afsökunar,“ segir í yfirlýsingu Frederiksen. Afsökunarbeiðnin er send út fyrir hönd danska ríkisins og heimastjórnar Grænlands, Naalakkersuisut.

Danskir og grænlenskir fjölmiðlar hafa á síðustu árum fjallað mikið um Lykkjumálið svokallaða sem snýr að því að lykkjur hafi um árabil verið settar upp í fjölmargar grænlenskar konur og stúlkur, allt niður í þrettán ára, og að þeim óafvitandi og án samþykkis. Var þetta gert í þeim tilgangi að hefta fólksfjölgun á Grænlandi.

Forsætisráðherrann danski biðst í yfirlýsingunni afsökunar á þeim málum sem áttu sér stað fram til ársins 1992, en fyrir það bar danska ríkið ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni á Grænlandi. Jens-Frederik Nielsen, forsætisráðherra Grænlands, biðst svo afsökunar á þeim málum sem áttu sér stað eftir það.

„Við viðurkennum að lykkjumálið hefur valdið mikilli reiði og sorg hjá fjölmörgum Grænlendingum og mörgum fjölskyldum á Grænlandi,“ segir í yfirlýsingu Frederiksen.

Á vef DR segir að þetta hafi sérstaklega flest málin hafi komið upp á sjöunda og áttunda áratugnum.

Danska ríkisstjórnin hóf opinbera rannsókn á málinu árið 2022 og átti henni að ljúka í síðasta lagi fyrir 1. september í ár.

Alls hafa 143 grænlenskar konur höfðað mál á hendur danska ríkinu vegna málsins og farið fram á 43 milljónir danskra króna í skaðabætur vegna þess sem þær lýsa sem brot á mannréttindum sínum.


Tengdar fréttir

143 græn­lenskar konur stefna danska ríkinu

Hundrað fjörutíu og þrjár grænlenskar konur hafa stefnt danska ríkinu og farið fram á skaðabætur í lykkjumálinu svokallaða. Konurnar telja danska ríkið hafa brotið á mannréttindum þeirra og fara fram á skaðabætur upp á 300 þúsund danskar krónur hver, um sex milljónir íslenskra króna.

Segir lykkju­málið á Græn­landi glæp­sam­legt

Ritari grænlensks stjórnmálaflokks segir reiði og sorg hafa gripið um sig í samfélaginu eftir að í ljós kom að dönsk stjórnvöld hefðu komið lykkjunni fyrir í þúsundum ungra kvenna í landinu. Íslenskur læknir segir málið glæpsamlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×