Enski boltinn

Neyðar­leg töl­fræði Onana í vítakeppninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
André Onana og félagar hans í Manchester United eru úr leik í enska deildabikarnum eftir tap fyrir D-deildarliði Grimsby Town.
André Onana og félagar hans í Manchester United eru úr leik í enska deildabikarnum eftir tap fyrir D-deildarliði Grimsby Town. getty/Jacques Feeney

André Onana fékk heldur betur á baukinn eftir að Manchester United féll úr leik gegn D-deildarliði Grimsby Town í 2. umferð enska deildabikarsins í gær.

Onana lék ekki fyrstu tvo leiki United í ensku úrvalsdeildinni en stóð á milli stanganna á Blundell Park í gær. Rauðu djöflarnir voru 2-0 undir í hálfleik en Onana leit illa út í báðum mörkunum sem Charles Vernam og Tyrell Warren skoruðu.

United tókst að jafna með mörkum frá Bryan Mbeumo og Harry Maguire og úrslit leiksins réðust því í vítakeppni.

Bæði lið skoruðu úr fyrstu tveimur spyrnum sínum en Onana varði svo frá Clarke Odour. Það dugði þó ekki til sigurs því Matheus Cunha klúðraði sinni spyrnu í 5. umferð vítakeppninnar. Í 13. umferðinni skaut Mbeumo svo í slá og United því úr leik.

Onana var ekki sannfærandi í vítakeppninni en alls fimm sinnum fór hann í rétt horn og snerti boltann en náði bara að verja eina spyrnu.

Onana skoraði reyndar úr sinni spyrnu í vítakeppninni en ekki er hægt að segja að Kamerúninn hafi verið sannfærandi þegar kom að því að reyna að verja spyrnur Grimsby-manna.

Mikið hefur verið rætt og ritað um markvarðastöðuna hjá United. Altay Bayindir spilaði fyrstu tvo leikina í ensku úrvalsdeildinni og var ósannfærandi og Onana greip ekki beint gæsina í gær.

Markvörður Antwerp, Senne Lammens, hefur verið orðaður við United sem er með eitt stig í ensku úrvalsdeildinni. Næsti leikur liðsins er gegn Burnley á laugardaginn.


Tengdar fréttir

„Við vorum algjörlega týndir“

Ruben Amorim, stjóri Manchester United, var ekki upplitsdjarfur eftir að liðið datt út úr enska deildabikarnum í kvöld á móti D-deildarliði Grimsby Town. Þetta var skömmustulegt kvöld fyrir stórliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×