Enski boltinn

Glugganum lokað: Enn ó­víst hvort stærstu skiptin hafi gengið í gegn

Íþróttadeild Sýnar skrifar
Alexander Isak verður í dag dýrasti leikmaður í sögu enska boltans ef að líkum lætur.
Alexander Isak verður í dag dýrasti leikmaður í sögu enska boltans ef að líkum lætur. Getty/Charlotte Wilson

Sjaldan verið eins margt spennandi í gangi á lokadegi félagaskiptagluggans á Englandi. Enn er óvíst hvort stærstu skiptin hafi gengið í gegn en glugganum hefur verið lokað.

Liverpool er að landa Alexander Isak frá Newcastle sem þar með verður dýrasti leikmaður í sögu enska boltans. Stutt er síðan Liverpool gerði Florian Wirtz að dýrasta leikmanni í sögu deildarinnar en það met stóð ekki lengi. Það á þó enn eftir að opinbera kaup Liverpool á Isak.

Hvað Marc Guéhi varðar þá verður hann áfram hjá Palace. 

Tottenham Hotspur hefur staðfest komu Randal Kolo Muani á láni. Þessi 26 ára gamli franski framherji kemur frá Evrópumeisturum París Saint-Germain. Á síðustu leiktíð lék hann með Juventus á láni og nú mun hann reyna fyrir sér í ensku úrvalsdeildinni.

Franska stórliðið hefur þá selt miðjumanninn Carlos Soler til Real Sociedad. Skrifar hann undir samning til ársins 2029. Landsliðsfyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson leiðir línuna hjá Sociedad.

Manchester City á eftir að staðfesta kaupin á markverðinum Gianluigi Donnarumma og er talið næsta öruggt að það gerist hvað á hverju. Hann er þó sem stendur enn leikmaður Evrópumeistaranna.

Það var nóg að gera á skrifstofu Manchester United. Markvörðurinn Senne Lammens er mættur til að leysa markmannsvandræði félagsins. Um er að ræða 23 ára gamlan Belga sem hefur aðeins spilað í heimalandinu til þessa.

Danski framherjinn Rasmus Höjlund er farinn á láni til Ítalíumeistara Napoli. Hann á að fylla skarð Romelu Lukaku sem er að glíma við meiðsli. Real Betis hefur þá fest kaup Antony.

Brasilíski vængmaðurinn stóð sig frábærlega á láni hjá félaginu á síðustu leiktíð en um tíma virtist sem vistaskiptin myndu ekki ganga upp. Á endanum náðist að semja um kaup og kjör. Martraðardvöl Antony í Manchester er því lokið.

Ungi bakvörðurinn Harry Amass hefur þá gengið í raðir B-deildarliðsins Sheffield Wednesday á láni.

Victor Lindelöf, fyrrverandi miðvörður Man United, samdi við Aston Villa. Fyrrverandi samherji hans, Jadon Sancho, er svo á leið til Villa á láni. Sömu sögu er að segja af Harvey Elliott, leikmanni Liverpool.

Arsenal hefur lánað Jakub Kiwior til Porto. Portúgalska félagið þarf svo að kaupa leikmanninn næsta sumar. Kiwior gekk í raðir Arsenal í janúar árið 2023 og spilaði samtals 68 leiki fyrir Skytturnar. 

Á sama tíma hefur Arsenal staðfest komu Piero Hincapie frá Bayer Leverkusen. Hann kemur á láni út tímabilið með möguleika á kaupum næsta sumar. Hann er áttundi leikmaðurinn sem Skytturnar fá í sínar raðir.

Fabio Viera og Sambi Lokanga hafa svo verið sendir frá Arsenal til nýliða Hamburg á láni. Þýska félagið getur svo fest kaup á tvíeykinu næsta sumar.

Önnur félagaskipti

  • Fulham seldi Martial Godo til Strasbourg og keypti Kevin frá Shakhtar Donetsk, vængmann frá Brasilíu, fyrir 5,8 milljarða íslenskra króna. Samuel Chukwueze er svo kominn á láni frá AC Milan.  Tyrique George mun hins vegar ekki ganga í raðir Fulham frá Chelsea.
  • Úlfarnir keyptu Tolu Arokodare frá Genk í Belgíu fyrir nærri fjóra milljarða íslenskra króna.
  • Brighton & Hove Albion lánaði Facundo Buonanotte til Chelsea og Jeremy Sarmiento til Cremonese.
  • Ben Chilwell hefur loks yfirgefið Chelsea. Hann gengur til liðs við Strasbourg sem er undir sama eignarhaldi og Chelsea. Raheem Sterling og Axel Disasi eru hins vegar enn leikmenn Chelsea eftir að hafa verið orðaðir frá félaginu í allt sumar. 
  • Chelsea hefur þá kallað framherjann Marc Guiu til baka úr láni frá Sunderland þar sem Liam Delap er meiddur. Sunderland hefur í staðinn fengið Brian Brobbey frá Ajax og hollenska félagið er að sækja Kasper Dolberg til að fylla skarð Brobbey.
  • Bournemouth hefur fengið Álex Jiménez á láni frá AC Milan. Táningurinn Veljko Milosavljević var svo keyptur frá Rauðu stjörnunni.
  • Darko Churlinov er genginn í raðir Burnley líkt og Florentino Luis.
  • Nottingham Forest hefur keypt vinstri bakvörðinn Cuiabano frá Botafogo. Um er að ræða annan leikmanninn á jafn mörgum dögum sem Forest kaupir frá Botafogo. Í gær var staðfest að Forest hefði keypt markvörðinn John Victor. Rétt fyrir lok gluggans tókst Forest að næla í Oleksandr Zinchenko á láni frá Arsenal.

  • Hinn franski Odsonne Edouard hefur yfirgefið Crystal Palace fyrir Lens í heimalandinu. Miðvörðurinn Jaydee Canvot er genginn í raðir félagsins frá Toulouse í Frakklandi.
  • Everton hefur fengið miðjumanninn Merlin Rohl á láni frá Freiburg sem spilar í efstu deild Þýskalands. Everton getur keypt hinn 23 ára gamla Rohl næsta sumar.
  • Nicolo Zaniolo elskar að skipta um félög og hefur nú samið við Udinese. Hann hefur leikið fyrir Inter, Roma, Galatasaray, Aston Villa, Atalanta og Fiorentina. 
  • Dele Alli hefur rift samningi sínum við Como í Serie A, efstu deild Ítalíu, eftir aðeins einn leik.
  • Adrien Rabiot er genginn í raðir AC Milan. Hann kemur frá Marseille þar sme hann lenti í slagsmálum við Jonathan Rowe á æfingu í síðasta mánuði. Rowe hefur verið seldur til Bologna.

Hér að neðan má sjá beina textalýsingu Vísis frá því helsta sem gerðist í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×