Fótbolti

Ten Hag rekinn frá Leverkusen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik ten Hag var ekki langlífur í starfi hjá Bayer Leverkusen.
Erik ten Hag var ekki langlífur í starfi hjá Bayer Leverkusen. epa/HANNIBAL HANSCHKE

Erik ten Hag hefur verið sagt upp störfum sem knattspyrnustjóra Bayer Leverkusen eftir aðeins tvo leiki í þýsku úrvalsdeildinni.

Fótboltavéfréttin Fabrizio Romano greinir frá því að Ten Hag hafi verið rekinn úr starfi í morgun.

Ten Hag tók við Leverkusen af Xabi Alonso í sumar en náði aðeins að stýra liðinu í þremur leikjum, tveimur í deild og einum í bikar.

Á laugardaginn gerði Leverkusen 3-3 jafntefli við Werder Bremen í 2. umferð þýsku úrvalsdeildarinnar. Leverkusen komst í 1-3 og var manni fleiri en Bremen kom til baka og náði í jafntefli. Karim Coulibaly skoraði jöfnunarmarkið þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Leverkusen hefur misst marga sterka leikmenn eftir að síðasta tímabili lauk. Florian Wirtz og Jeremie Frimpong fóru til Liverpool, Jonathan Tah til Bayern München, Odilon Kossouno til Atalanta, Amine Adli til Bournemouth og Granit Xhaka til Sunderland.

Ten Hag er þriðji fyrrverandi stjóri Manchester United sem missir starfið sitt á síðustu fimm dögum. Á fimmtudaginn var Ole Gunnar Solskjær rekinn frá Besiktas og daginn eftir sagði Fenerbahce José Mourinho upp störfum.

Uppfært klukkan 10:00

Leverkusen hefur staðfest að Ten Hag hafi verið rekinn frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×