Enski boltinn

Man. City seldi mark­vörð og lánaði varnar­mann

Sindri Sverrisson skrifar
Það lá lengi í loftinu að Ederson færi frá Manchester City í sumar.
Það lá lengi í loftinu að Ederson færi frá Manchester City í sumar. Getty/Catherine Ivill

Manchester City hefur staðfest brotthvarf brasilíska markvarðarins Ederson og svissneska varnarmannsins Manuel Akanji, við lokun félagaskiptagluggans.

Glugginn lokaðist í gær en enn er verið að staðfesta félagaskipti og hafa City-menn nú greint frá því að Ederson hafi verið seldur til tyrkneska félagsins Fenerbahce.

Hinn 32 ára gamli Ederson var í átta ár hjá City og vann til að mynda sex Englandsmeistaratitla sem og Meistaradeild Evrópu. Fenerbahce greiðir fyrir hann 12,1 milljón punda. City var búið að kaupa James Trafford frá Burnley í sumar og semja við PSG um kaup á Gianluigi Donnarumma.

Akanji er svo farinn til Inter á Ítalíu að láni út leiktíðina. Þessi þrítugi varnarmaður hefur verið leikmaður City frá árinu 2022, þegar hann kom frá Dortmund, en fallið aftar í goggunarröðinni og ekkert spilað á þessari leiktíð.

Manuel Akanji hefur sennilega spilað sinn síðasta leik fyrir Manchester City.EPA/DAVID CLIFF

Crystal Palace, AC Milan og Galatasaray höfðu einnig áhuga á Akanji en hann valdi Inter og vildi spila í Meistaradeild Evrópu. Lánssamningurinn er með klásúlu um að Inter kaupi Akanji fyrir 13 milljónir punda verði Inter ítalskur meistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×