Enski boltinn

Biturðin lak af til­kynningu um Isak

Sindri Sverrisson skrifar
Það er hvergi minnst á öll mörkin sem Alexander Isak skoraði fyrir Newcastle, í tilkynningu félagsins.
Það er hvergi minnst á öll mörkin sem Alexander Isak skoraði fyrir Newcastle, í tilkynningu félagsins. Getty

Talsmenn enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle voru ekkert að hafa fyrir því að þakka Alexander Isak fyrir vel unnin störf, í aðeins 37 orða tilkynningu um að hann hefði verið seldur til Liverpool.

Isak skoraði 62 mörk á tíma sínum með Newcastle og meðal annars í úrslitaleik enska deildabikarsins, gegn Liverpool í mars, þegar Newcastle vann sinn fyrsta titil síðan árið 2006. Á Wikipedia hefur einhver óhress Newcastle-maður reyndar skráð það mark á „rottu“.

Á þessi mörk og titilinn í mars er hvergi minnst í tilkynningu Newcastle um brotthvarf Isaks, og greinilegt að félagið er afar ósátt við það með hvaða hætti það bar að. Skyldi engan undra enda átti Isak eftir þrjú ár af samningi sínum við félagið og var orðinn sú markamaskína sem vonir stóðu til.

Það tekur ekki langan tíma að lesa tilkynningu Newcastle um brotthvarf Alexanders Isak.Skjáskot/nufc

Isak gerði nánast allt til þess að þrýsta á að hann fengi að fara til Liverpool og á endanum gaf Newcastle eftir og seldi hann fyrir metfé á Bretlandi, eða 125 milljónir punda.

Í hinni stuttu tilkynningu Newcastle er það eina sem kemur fram að Isak hafi verið seldur fyrir umtalsvert metfé til Liverpool og að þessi sænski landsliðsmaður hafi komið frá Real Sociedad árið 2022 og spilað samtals 109 leiki.

Öllu fleiri orð fóru í að tilkynna um komu Yoane Wissa sem Newcastle tryggði sér endanlega í gær en félagið keypti hann frá Brentford fyrir 55 milljónir punda.

Wissa fór svipaða leið og Isak með því að senda frá sér yfirlýsingu og þrýsta á að hann yrði seldur, sem að lokum bar árangur.

Áður hafði Newcastle svo keypt þýska framherjann Nick Woltemade fyrir 69 milljónir punda sem gerir hann að dýrasta leikmanni sem félagið hefur keypt. Segja má að peningunum sem Newcastle fær fyrir Isak hafi því þegar verið ráðstafað með kaupunum á framherjunum tveimur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×