Erlent

Búa sig undir komu her­manna og út­sendara ICE

Samúel Karl Ólason skrifar
JB Pritzker, ríkisstjóri Illinois, á fundi með hagsmunasamtökum íbúa sem berjast gegn glæpum í Chicago í gær.
JB Pritzker, ríkisstjóri Illinois, á fundi með hagsmunasamtökum íbúa sem berjast gegn glæpum í Chicago í gær. AP/Nam Y. Huh

Leiðtogar Chicago í Bandaríkjunum búa sig nú undir það að fá fjölda hermanna og útsendara Innflytjendastofnunnar Bandaríkjanna (ICE) til borgarinnar. Það gera þeir meðal annars með því að fræða íbúa um réttindi þeirra og eru samfélagsleiðtogar að skipuleggja mótmæli.

Í samtali við AP fréttaveituna segja íbúar Chicago og þá sérstaklega í hlutum borgarinnar þar sem innflytjendur og þeldökkir eru margir, að aukinn alvarleiki hafi færst í líf þeirra.

Íbúar hættulegasta hverfis Chicago sögðu margir í samtali við blaðamenn að ástandið þar hefði skánað að undanförnu. Ekki voru allir sem rætt var við sammála um að ástandið hefði skánað en flestir voru þó sammála um að ólíklegt væri að hermenn geti aðstoðað við að berjast gegn glæpum. Það þurfi að taka á undirliggjandi ástæðum glæpa.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ítrekað hótað því að senda hermenn til Chicago, sem hann kallar oft skítapleis. Hann hefur sagst ætla að senda þjóðarvarðliða til borgarinnar til að berjast gegn glæpum og í senn verði útsendarar ICE sendir til elta upp innflytjendur og annað fólk sem grunað er um að dvelja í Bandaríkjunum með ólöglegum hætti.

Í þessari viku gaf Trump enn og aftur til kynna að hann ætlaði sér að senda hermenn og útsendara alríkisins til Chicago, þvert á mótmæli borgarstjóra borgarinnar og ríkisstjóra Illinois. Hvenær það á að gerast liggur þó ekki fyrir.

„Ég vil fara inn í Chicago,“ sagði Trump í gær. Þá sagði hann JB Pritzker, ríkisstjóra, vera óhæfan í starfi.

Pritzker tjáði sig um ætlanir Trumps á blaðamannafundi í gær og sagði meðal annars að ummæli Trumps í garð Chicago væru klikkuð. Hann sagði Trump ekki hafa neinn áhuga á að berjast gegn glæpum. Hann vildi eingöngu auka völd sín og skapa sjónarspil.

Tom Homan, „landamærakeisari“ Trumps, ítrekaði í viðtali á Fox í gær að gripið yrði til aðgerða í Chicago. Borgin yrði „gerð örugg á nýjan leik“.

Alríkisdómari í Kaliforníu komst nýverið að því að Trump mætti ekki nota hermenn þar í almenna löggæslu. Úrskurðurinn gildir þó eingöngu um Kaliforníu en ekki önnur ríki.

Sjá einnig: Mátti ekki nota hermenn til lög­gæslu í Los Angeles

Trump hefur lengi talað um að senda hermenn til borga þar sem Demókratar ráða ríkjum, með því yfirlýsta markmiði að berjast gegn glæpastarfsemi. Það er jafnvel þó glæpatíðni hafi farið lækkandi í þessum borgum.

Meðal annars hefur hann nefnt Chicago, Oakland, Baltimore og í gær nefndi Trump svo New Orleans og gaf til kynna að hann vildi senda hermenn þangað. Jeff Landry, ríkisstjóri Louisiana og Repúblikani, tók því fagnandi. Það er þrátt fyrir að opinber tölfræði sýni að í borginni, sem stjórnað af Demókrötum, hafi glæpatíðni á flestum sviðum lækkað töluvert að undanförnu, samkvæmt frétt New York Times.

Trump hefur aldrei nefnt borgir sem stjórnað er af Repúblikönum í þessu samhengi. Þegar hann var spurður hvort hann myndi senda hermenn til borga sem stýrt er af Repúblikönum þar sem glæpatíðni væri há, sagði hann: „Sjálfsagt. Þær eru samt svo fáar.“

Chicago er þriðja fjölmennasta borg Bandaríkjanna en stórum borgum landsins er iðulega stýrt af Demókrötum. Í greiningu DW segir til að mynda að af hundrað stærstu borgum Bandaríkjanna eru skráðir Demókratar borgarstjóra 65 þeirra og skráðir Repúblikanar stýra 23.

Tíðinin verst í strjálbýlum ríkjum

Þá kemur fram í tölfræði frá Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) fyrir árið 2024 að glæpatíðni sé heilt yfir sambærileg í stærstu borgum Bandaríkjanna, hvort sem þeim sé stýrt af Demókrötum eða Repúblikönum.

Talsmenn FBI sögðu í samtali við DW að þeir vöruðu sérstaklega við því að nota þessa tölfræði til að reyna að flokka borgir eftir glæpum. Gögnin innihaldi ekki nauðsynlegar upplýsingar eins og þéttleika byggða, efnahagsaðstæður og ýmislegt annað. Þá geti verið stór munur á milli hverfa í borgum.

Í greiningu Axios á þessum sömu gögnum segir að sé tillit tekið til þéttleika byggða og fjölda íbúa sé tíðni ofbeldisglæpa hæst í strjálbýlum ríkjum í suður- og vesturhluta Bandaríkjanna, sem flestum er stýrt af Repúblikönum.

Miðað við höfðatölu voru flestir ofbeldisglæpir framdir í Alaska eða 1.194,3 á hverja hundrað þúsund íbúa. Meðaltalið yfir Bandaríkin var 359,1. Nýja Mexíkó var í öðru sæti með 757,7 ofbeldisglæpi á hverja hundrað þúsund íbúa.

Þegar kemur að morðum voru sömu ríki í efstu sætum. Í báðum ríkjum var hlutfallið 11,3 morð á hverja hundrað þúsund íbúa en meðaltalið á landsvísu var fimm morð á hverja hundrað þúsund íbúa. Pennsylvanía var í þriðja sæti með 10,1.

Louisiana, Tennessee, Alabama, Arkansas og Suður-Karólína þykja einnig sérstaklega slæm þegar kemur að ofbeldisglæpum og morðum í fyrra. Þar var tíðnin töluvert hærri en meðaltíðni Bandaríkjanna.

Illinois, þar sem Chicago er og Trump hefur ítrekað kallað „drápssvæði“ var með sex morð á hverja hundrað þúsund íbúa og í tuttugasta sæti heilt yfir Bandaríkin.

Morð tíð í suðri

Þegar tilteknar borgir eru teknar fyrir og morðatíðni skoðuð, eins og FBI hefur varað við að eigi ekki að gera, eru verstu borgirnar í suðurhluta Bandaríkjanna. Samkvæmt samantekt The Hill er versta borgin Jackson í Mississippi en henni hefur verið stýrt af Demókrötum.

Þar voru framin 77,8 morð á hverja hundrað þúsund íbúa í fyrra. Meðaltalið yfir stórar borgir er 8,2 morð á hverja hundrað þúsund íbúa.

Birmingham í Alabama er í öðru sæti með 58,8 morð á hverja hundrað þúsund íbúa. St. Louis í Missouri er í því þriðja með 54,1 morð á hverja hundrað þúsund íbúa og Memphis í Tennessee er í því fjórða með 40,6 morð.

Baltimore er í fimmta sæti með 34,8 morð á hverja hundrað þúsund íbúa. Þar á eftir koma Detroit (31,2), Cleveland (30), Louisville (21,7), Indianapolis (20) og Oakland (18,6).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×