Fótbolti

54 ára mark­vörður rífur hanskana af hillunni

Siggeir Ævarsson skrifar
Terry Dunn (til vinstri) hefur svarað kallinu frá sínu uppáhalds félagi
Terry Dunn (til vinstri) hefur svarað kallinu frá sínu uppáhalds félagi Mynd Dorking Wanderers FC

Ansi sérstök staða er komin upp hjá enska neðrideildarliðinu Dorking Wanderes en liðið hefur gert skammtímasamning við 54 ára stuðningsmann sökum meiðsla hjá liðinu.

Markvörður liðsins, Harrison Foulkes, er meiddur og sendi liðið út neyðarkall sem stuðningsmaðurinn Terry Dunn hefur svarað og mun hann standa á milli stanganna þegar liðið mætir AFC Totton á morgun í National League South, sem er F-deildin í enska deildakerfinu.

Dunn lagði hanskana formlega á hilluna árið 1997 eftir að hafa leikið með ýmsum neðrideildar liðum en hann segist sjálfur enn spila fótbolta reglulega og hefur ekki miklar áhyggjur af leiknum á morgun.

„Að spila í marki er eins og hjóla, þú gleymir því aldrei. Ég spila enn reglulega bumbubolta. Sem stuðningsmaður Wanderers þá verður enginn sem mun leggja jafn mikið á sig til að halda hreinu á laugardaginn og ég.“

Ekki er reiknað með að Dunn spili fleiri leiki en þennan eina á morgun en félagið hefur gefið út að lánsmarkvörður verði formlega tilkynntur á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×