Fótbolti

„Ekki boð­legt fyrir lið eins og Þór/KA“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Jóhann Kristinn, þjálfari Þórs/KA, var ekki sáttur
Jóhann Kristinn, þjálfari Þórs/KA, var ekki sáttur Vísir/Anton Brink

Þór/KA tapaði fyrir Stjörnunni 4-1 í Garðabæ í 17. umferð Bestu deildar kvenna í dag. Liðið hefur sótt þrjú stig í sex leikjum eftir EM pásuna og er ljóst að Jóhann Kristinn, þjálfari liðsins, þarf að finna leið og lausnir til þess að liðið detti ekki niður í neðri hluta deildarinnar.

„Það var ansi margt sem fór úrskeiðis í dag. Við töpuðum líklega á móti öflugra liði í dag sem einhverra hluta vegna var meira til í að berjast fyrir hlutunum heldur en mitt lið og Stjarnan átti sigurinn skilið“ - Sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA eftir tap liðsins í dag.

„Ég held að þú getir aldrei verið sáttur með frammistöðu liðs sem tapar 4-1. En ég var ánægður eftir vonda byrjun, þá komum við nokkuð sterkar til baka og náðum að svara og bíta aðeins frá okkur. En svo verðum við fyrir smá áfalli og missum leiðtoga frá okkur af miðjunni og mér fannst liðið svara og reyna að bæta í en því miður entist það ekki. Það vantaði brodd í okkur og kraft.“

Hvernig sérðu fyrir þér næstu tvo leiki?

„Nú er þetta uppá líf og dauða og augljóst í hvaða baráttu við erum komin. Þangað höfum við komið okkur sjálf og ég verð að taka það á mig hvernig við erum búin að fara með þetta eftir EM pásuna. Við höfum úrslitalega séð verið í frjálsu falli og það þarf þjálfarinn að skoða. Þetta er ekki eðlilegt og ekki boðlegt fyrir lið eins og Þór/KA.“ - Sagði Jóhann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×