Fótbolti

„Þessi við­brögð eru auð­vitað ekki í lagi“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Simeone átti í útistöðum við stuðningsmann Liverpool.
Simeone átti í útistöðum við stuðningsmann Liverpool. Marc Atkins/Getty Images

Þjálfarinn Diego Simeone reifst við áhorfanda og fékk að líta rautt spjald þegar Liverpool vann Atlético Madrid 3-2 með marki í uppbótartíma. Hann sér eftir sínum viðbrögðum.

„Þeir voru að öskra á mig, móðgandi hlutum, allan leikinn. Ég get ekki sagt neitt því ég er þjálfarinn og þessi viðbrögð eru auðvitað ekki í lagi. Dómarinn sýndi þessu skilning og ég vona að Liverpool bæti úr þessu, þegar þeir finna stuðningsmanninn þarf honum að vera refsað. En ég þarf að halda ró í svona aðstæðum og taka þessu“ sagði Simeone eftir leik en atvikið má sjá hér fyrir neðan.

„Orðinn of gamall fyrir svona sein sigurmörk“

Liverpool setti sigurmark seint, í fimmta leiknum í röð.

Fyrirliðinn Virgil van Dijk skoraði sigurmarkið með skalla í uppbótartíma. Marcos Llorente hafði þá náð að jafna með því að setja tvö mörk eftir að Andy Robertson og Mohamed Salah skoruðu snemma fyrir Liverpool.

„Við verðum að reyna að vinna leiki aftur á aðeins einfaldari máta. Aðstoðarþjálfarinn sneri sér að mér þegar Virgil skallaði sigurmarkið inn og sagði: Ég er orðinn of gamall fyrir svona sein sigurmörk. Ég get varla ímyndað mér hvernig stuðningsmönnunum líður.

Þetta er frábært vopn að eiga en við tókum tveggja marka forystu í fyrri hálfleik og hefðum átt að vinna þægilegri sigur“ sagði einn af markaskorurum leiksins, Andy Robertson.

Markið sem hann skoraði var eftir skot úr aukaspyrnu frá Mohamed Salah, sem fór í hælinn á honum og inn.

„Ég var bara að reyna að byrgja markmanninum sýn en þetta var frábær afgreiðsla, gefið mér Puskas verðlaunin, núna! Nei, í fullri hreinskilni hafði ég ekki hugmynd um að þetta myndi gerast, en þetta var frábær byrjun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×