Erlent

80.000 lög­reglu­menn í við­bragðs­stöðu vegna boðaðra mót­mæla í dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gert er ráð fyrir að mótmælin í dag verði þau stærstu frá 2023, þegar fjöldi fólks mótmælti því að eftirlaunaaldurinn var hækkaður í 64 ár án atkvæðagreiðslu í þinginu.
Gert er ráð fyrir að mótmælin í dag verði þau stærstu frá 2023, þegar fjöldi fólks mótmælti því að eftirlaunaaldurinn var hækkaður í 64 ár án atkvæðagreiðslu í þinginu. Getty/NurPhoto/Jerome Gilles

Gert er ráð fyrir að um 800.000 manns muni taka þátt í mótmælum í Frakklandi í dag, þar sem um 250 mótmælagöngur hafa verið skipulagar út um allt land.

Um 80.000 lögreglumenn verða í viðbragðsstöðu vegna mótmælanna.

Mótmælendur höfðu þegar komið sér fyrir við samgöngumiðstöðvar í París í morgun og þá höfðu mótmælendur tekið sér stöður við skóla í austurhluta borgarinnar. Gert er ráð fyrir að mótmælin muni hafa veruleg áhrif á samgöngur og skólahald í dag.

Flest mótmælanna hafa verið skipulögð af hinum ýmsu stéttarfélögum, sem freista þess að setja þrýsting á nýjan forsætisráðherra, Sébastien Lecornu, að hverfa frá stefnu forvera síns um verulegan niðurskurð í ríkisfjármálunum.

Stjórnvöld hafa verið sökuð um að hafa sett hagsmuni fyrirtækja ofar hagsmunum almennings.

Lecornu er þriðji forsætisráðherra Frakklands á tólf mánuðum en forverar hans tveir, þeir Michel Barnier og François Bayrou, voru báðir neyddir frá af þinginu vegna deilna um fjárhagsáætlun ríkisins.

Forsætisráðherrann nýi, sem var varnarmálaráðherra í ríkisstjórnum Barnier og Bayrou, hefur heitið því að hverfa frá fyrri stefnu en hefur ekki náð að sannfæra stjórnarandstöðuna né landsmenn um að hann hafi raunverulega eitthvað nýtt fram að færa.

Lecornu hefur þegar heitið því að falla frá fyrirætlunum Bayrou um að fella niður tvo stórhátíðardaga en verkalýðsfélögin eru uggandi yfir því að hann muni halda því til streitu að skera niður í velferðarmálum.

Forsætisráðherrann hefur aðeins nokkar vikur til að leggja fram nýja fjárhagsáætlun, sem verður að vera þannig úr garði gerð að stjórnarandstaðan sjái sér ekki annað fært en að leggja tafarlaust fram vantrauststillögu gegn honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×