Fótbolti

Mourinho strax kominn með nýtt starf

Sindri Sverrisson skrifar
Jose Mourinho er mættur aftur í portúgalska boltann.
Jose Mourinho er mættur aftur í portúgalska boltann. Getty/Pedro Loureiro

Portúgalska knattspyrnufélagið Benfica tilkynnti formlega í dag að Jose Mourinho hefði verið ráðinn nýr knattspyrnustjóri liðsins. Hann skrifaði undir samning sem gildir til sumarsins 2027.

Mourinho var því afar fljótur að fá nýtt starf eftir að hann var rekinn frá tyrkneska félaginu Fenerbahce í kjölfarið á því að hans nýja félag, Benfica, sló Fenerbahce út í umspili Meistaradeildar Evrópu.

Þessi 62 ára gamli Portúgali er þar með kominn aftur í brúna hjá félaginu sem hann hóf stjóraferil sinn með árið 2000. Þá entist hann þó aðeins tíu leiki en hætti eftir ósætti við forseta félagsins.

Í nýja samningnum við Benfica er riftunarákvæði sem bæði félagið og Mourinho geta nýtt sér, fyrstu tíu dagana eftir að yfirstandandi leiktíð lýkur næsta vor.

Mourinho tekur við Benfica af Bruno Lage sem var rekinn eftir tapið óvænta gegn Qarabag á þriðjudaginn í Meistaradeild Evrópu. Aserarnir lentu 2-0 undir en náðu að vinna 3-2 sigur og taka þrjú stig með sér heim.

Tapið var það eina hjá Lage í öllum keppnum á þessari leiktíð en liðið er með 10 stig eftir fjóra leiki í portúgölsku úrvalsdeildinni, fimm stigum á eftir Porto en með leik til góða.

Fyrsti leikur Benfica undir stjórn Mourinho verður gegn AVS, sem situr í 17. sæti, á laugardagskvöld. Næsti leikur liðsins í Meistaradeild Evrópu verður gegn Chelsea á Stamford Bridge, þar sem Mourinho þekkir afar vel til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×