Neytendur

U-beygja Metro sem komst í gegnum eftir­lit án nokkurra at­huga­semda

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Skyndibitastaðurinn Metro hefur tekið algjöra U-beygju. Myndirnar eru úr fyrri skýrslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
Skyndibitastaðurinn Metro hefur tekið algjöra U-beygju. Myndirnar eru úr fyrri skýrslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Vísir/Samsett

Eftir svarta skýrslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í sumar hafa forsvarsmenn skyndibitastaðarins Metro tekið veitingastaðinn í gegn. Í sumar var slæmum aðbúnaði og almennum óþrifnaði staðarins lýst en mánuði seinna kom staðurinn út úr eftirliti án athugasemda.

Í ágústmánuði var greint frá slæmum aðbúnaði í húsnæði skyndibitastaðarins Metro við Suðurlandsbraut. Mygluvöxtur, óhreint eldhús og slitið leiksvæði tók á móti starfsmanni Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem framkvæmdi úttekt á staðnum í kjölfar kvörtunar um grun um matareitrun barns sem hafði borðað á staðnum.

Alls voru 45 frávik skráð í fyrstu skýrslunni.

Þann 9. september sneri starfsmaður eftirlitsins aftur til að athuga hvort brugðist hefði verið við athugasemdunum. Starfsmenn Metro höfðu heldur betur tekið á málinu og komst staðurinn í gegnum skoðun án athugasemda.

Nýtt leiksvæði á leiðinni

Aðbúnaður á leiksvæði staðarins var sérstaklega tekinn fyrir í fyrstu skýrslu eftirlitsins þar sem kvörtun barst um að leikhornið væri hættulegt börnum. Öryggisnet í kastalanum var tætt og því auðvelt að klifra upp á topp kastalans. Þá voru þar óvarðir ofnar sem börn að leik gátu brennt sig á og ónýtir boltar. 

Í nýju skýrslunni kemur fram að brugðist hefur verið við athugasemdunum og hefur leiktækið verið lagfært eins og kostur er. Hins vegar er ætlunin að skipta því út og hefur nýtt tæki verið pantað. Áætlað er að það verði komið í lok október.

Virðast hafa farið í alþrif á staðnum

Í eldhúsinu var einnig mörgu ábótavant. Til að mynda fannst mygluvöxtur á gólfi í kælinum, brotnar flísar voru undir ísvél staðarins og mikið var um sjáanleg óhreinindi. Húsnæðið og búnaðurinn var „verulega vanþrifið“ og kallað var eftir alþrifum á staðnum. 

Eftirlitið sem framkvæmt var nú í byrjun september var, líkt og áður kom fram, án allra athugasemda. Á einum mánuði fór því staðurinn úr 45 athugasemdum í engar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×