Innlent

Leiðin­legt að ó­prúttnir aðilar skemmi fyrir heyrnar­lausum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Daði Hreinsson er framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra.
Daði Hreinsson er framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra. Vísir/Ívar Fannar

Formaður Félags heyrnarlausra harmar að glæpahópar reyni að hafa fé af fólki í nafni félagsins. Raunverulegir sjálfboðaliðar séu ávallt einkennisklæddir og vinni eftir ströngum siðareglum.

Í gær varaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu við svikahröppum sem þykjast vera að safna pening fyrir hönd Félags heyrnarlausra. Um er að ræða erlenda ríkisborgara sem þykjast vera heyrnarlausir og þykja ansi ýtnir.

Hefur áhrif á raunverulega sjálfboðaliða

Þessi aðferð svikahrappanna hefur haft áhrif á söfnun sjálfboðaliða sem eru í raun og veru á vegum Félags heyrnarlausra. Daði Hreinsson, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra, segir leiðinlegt þegar svona mál koma upp inn á milli.

„Þetta skapar vissulega neikvæða umræðu og viðhorf gagnvart félaginu. Sérstaklega í ljósi þess að við erum í fjáröflun en alls ekki á þennan hátt sem þetta fólk er gera,“ segir Daði.

Vegna þessara svikamála hefur það reglulega komið fyrir að fólk telji raunverulega sjálfboðaliða félagsins vera svikahrappa. Daði bendir á mikill meirihluti fjáröflunar félagsins fari fram með happdrættismiðasölu í heimahúsum. Það sé afar sjaldgæft að söfnun eigi sér stað á almannafæri.

„Þeir eru náttúrulega með posa og allar greiðslur eru merktar Félagi heyrnarlausra. Miðarnir prentaðir og númeraðir þannig það er ansi langsótt að fara að falsa slíka starfsemi,“ segir Daði. 

Það sé auðvelt fyrir svikahrappa að þykjast vera heyrnarlausir.

„Þú berð ekkert heyrnarleysið utan á þér. Þannig það er mjög auðvelt að þykjast vera heyrnarlaus. Það er bara þekkt um alla Evrópu að þessir hópar fara um allt og stunda þessa iðju, nákvæmlega eins og gert er hér,“ segir Daði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×