Erlent

Biðjast af­sökunar á „svörtum kafla“ í sögu Dan­merkur og Græn­lands

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Í dag hyggjast þessi tvö, Mette Frederiksen og Jens-Frederik Nielsen, biðja Grænlenskar konur formlega afsökunar á lykkjumálinu.
Í dag hyggjast þessi tvö, Mette Frederiksen og Jens-Frederik Nielsen, biðja Grænlenskar konur formlega afsökunar á lykkjumálinu. EPA/MADS CLAUS RASMUSSEN

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur er á Grænlandi þar sem hún mun síðar í dag biðjast formlega afsökunar á lykkjumálinu svokallaða fyrir hönd danska ríkisins. 143 grænlenskar konur sem hafa stefnt danska ríkinu vegna málsins kerfjast hátt í 6 milljóna króna í miskabætur hver.

Málið má rekja nokkra áratugi aftur í tímann en á sjöunda áratug síðustu aldar fyrirskipuðu dönsk stjórnvöld að getnaðarvarnarlykkju yrði komið fyrir í stúlkum á Grænlandi, allt niður í tólf ára aldur, og jafnvel án þeirra vitneskju.

Sjá einnig: Biður Grænlenskar konur afsökunar vegna „lykkjumálsins“

Frederiksen baðst afsökunar á málinu með yfirlýsingu í lok ágúst á þessu ári fyrir hönd danska ríkisins og heimastjórnar Grænlands en þá sagði hún meðal annars að ekki væri hægt að breyta fortíðinni. Hins vegar sé hægt að axla ábyrgð og því væri rétt að biðjast afsökunar. Afsökunarbeiðnin varðar málin sem áttu sér stað fram til ársins 1992, en fyrir það bar danska ríkið ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni á Grænlandi. Jens-Frederik Nielsen, formaður landsstjórnar Grænlands, biðst hins vegar afsökunar á þeim málum sem áttu sér stað eftir þann tíma.

Í dag hyggjast þau tvö, Mette og Jens-Frederik, biðjast formlega afsökunar í sameiningu á Grænlandi.

Fyrir liggur að 143 þeirra kvenna sem fengu uppsetta lykkju gegn eigin vilja hafa höfðað mál gegn danska ríkinu og krefjast þrjú hundruð þúsund danskra króna í miskabætur hver. Það jafngildir um það bil 5,7 milljónum íslenskra króna.

Þegar hafa grænlensk yfirvöld lofað að greiða bætur til þeirra kvenna sem fengu lykkjuna eftir árið 1992. Þá greindu dönsk stjórnvöld frá því á mánudag að til standi að setja á fót sjóð sem falið verði að úthluta bótum til þeirra kvenna sem í hlut eiga. Ekki hefur verið útfært hverjar bæturnar eiga að vera eða hvaða konur nákvæmlega munu eiga rétt á greiðslu úr sjóðnum.

Í viðatali við DR í dag segir Frederiksen að um sé að ræða „svartan kafla“ í sögu ríkjasambands Grænlands og Danmerkur.

Hún hefur í dag átt fundi með nokkrum þeirra kvenna sem fengu uppsetta lykkju þegar þær voru ungar. „Þær voru tólf og fjórtán ára þegar þær fengu lykkjuna án samþykkis. Þær vissu í rauninni ekki hvað var í gangi. Nokkrar þeirra hafa í framhaldinu ekki getað eignast börn. Þess vegna er málið mikilvægt,“ segir Frederiksen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×