Fótbolti

Trump hikar ekki við að færa leiki á HM úr hættu­legum borgum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Donald Trump og Gianni Infantino, forseti FIFA, með verðlaunagripinn á HM félagsliða sem fór fram í Bandaríkjunum í sumar.
Donald Trump og Gianni Infantino, forseti FIFA, með verðlaunagripinn á HM félagsliða sem fór fram í Bandaríkjunum í sumar. epa/CJ GUNTHER

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að hann muni færa leiki á heimsmeistaramótinu í fótbolta úr borgum sem hann telur ótryggar.

HM fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó á næsta ári. Þetta verður fyrsta heimsmeistaramótið með 48 liðum. Af 104 leikjum á HM fara 78 fram í Bandaríkjunum, í alls ellefu borgum.

„Þetta verður öruggt á HM. Ef við höldum að örygginu sé ógnað færum við leikina í aðra borg,“ sagði Trump við fréttamenn í forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu.

Trump var spurður út í leiki sem verða í borgum þar sem Demókratar ráða ríkjum, eins og Seattle og San Francisco. Hann nefndi einnig Los Angeles þar sem næstu Ólympíuleikar fara fram eftir þrjú ár.

„Ef við höldum að það sé jafnvel örlítil hætta fyrir HM eða Ólympíuleikana, sérstaklega heimsmeistaramótið, færum við leikina,“ sagði Trump sem er í nánu sambandi við Gianni Infantino, forseta FIFA.

Bandarísku borgirnar ellefu sem hýsa leiki á HM eru Atlanta, Boston, Dallas, Houston, Kansas City, Los Angeles, Miami, New York/New Jersey, Philadelphia, San Francisco og Seattle.

Heimsmeistaramótið hefst 11. júní á næsta ári og lýkur með úrslitaleik á MetLife leikvanginum í New Jersey 19. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×