Enski boltinn

Slot varpaði sökinni á Frimpong

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jeremie Frimpong gleymdi sér í sigurmarki Crystal Palace.
Jeremie Frimpong gleymdi sér í sigurmarki Crystal Palace. getty/Liverpool FC

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, gagnrýndi einn leikmanna liðsins fyrir þátt hans í sigurmarki Crystal Palace í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Eddie Nketiah skoraði sigurmark Palace, 2-1, þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan tíma. Liverpool tapaði því sínum fyrsta leik á tímabilinu. Palace er hins vegar eina ósigraða lið ensku úrvalsdeildarinnar og hefur ekki tapað í átján keppnisleikjum í röð.

Eftir leikinn sagði Slot að einn leikmaður Liverpool hefði gert sig sekan um slæm mistök í sigurmarkinu. Hann nefndi hann ekki á nafn en nokkuð augljóst er að hann átti við hægri bakvörðinn Jeremie Frimpong.

„Við getum bara sjálfum okkur um kennt fyrir að verjast eins og við gerðum,“ sagði Slot.

„Einn leikmanna okkar hljóp út því hann vildi fara í skyndisókn sem var gagnslaust því tíminn var liðinn. Þetta snerist bara um að verjast. Einn leikmaður var of sóknarsinnaður á þessu augnabliki sem leiddi til þess að þeir skoruðu sigurmarkið og við töpuðum leiknum.“

Sigurmark Palace kom eftir langt innkast. Will Hughes skallaði boltann vinstra megin í vítateiginn í átt að Nketiah, boltinn fór yfir Frimpong og gamli Arsenal-maðurinn lagði boltann fyrir sig og skoraði með vinstri fótar skoti framhjá Alisson í marki Liverpool.

Rauði herinn hefur verið duglegur að skora sigurmörk seint í leikjum á tímabilinu en í gær snerist dæmið við.

Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með fimmtán stig en Palace er í 2. sæti með tólf stig. Arsenal getur minnkað forskot Liverpool niður í tvö stig með sigri á Newcastle United í seinni leik dagsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×