Erlent

Þrettán ára grunaður um aðild að skot­á­rás

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Lögreglan yfirheyrði þrettán ára dreng. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögreglan yfirheyrði þrettán ára dreng. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty

Þrettán ára drengur er í haldi sænsku lögreglunnar, grunaður um að hafa tekið þátt í skotárás. Sex manns særðust í árásinni.

Lögreglunni í Gävle bárust tilkynningar um hávær skothljóð í nótt. Þegar hana bar að garði voru sex særðir á vettvangi og þau öll flutt á sjúkrahús. Öll sex eru á tvítugs- eða þrítugsaldri en ekkert þeirra er í lífshættu. Fjögur eru enn á sjúkrahúsi.

Á blaðamannafundi lögreglunnar sagði Karin Wessén, rannsóknarlögreglumaður, að þau hefðu góða mynd af því hvað gerðist. Hún vildi ekki tjá sig um ástæður árásarinnar né hvort lögregla hefði áður haft afskipti af hinum grunaða eða hvort árásin hafi verið í tengslum við gengi. 

Wessén sagði hins vegar ljóst að ekki hafi verið um hryðjuverkaárás að ræða samkvæmt SVT.

Þrettán ára drengur var handtekinn skammt frá vettvangi árásirnar og í kjölfarið yfirheyrður af lögreglu. Hann er grunaður um aðild að skotárásinni. Ekki liggur fyrir hvort hann verði áfram í haldi lögreglu en málið er komið í hendur félagsmálayfirvalda í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×