Lífið

Gefur endur­komu undir fótinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Aron Can hefur ekki verið að taka upp eða flytja eigin efni á tónleikum undanfarna mánuði.
Aron Can hefur ekki verið að taka upp eða flytja eigin efni á tónleikum undanfarna mánuði. Vísir/Hulda Margrét

Tónlistarmaðurinn Aron Can hefur verið í pásu frá tónlist undanfarna mánuði. Ástæðan sé ekki flogakast sem hann fékk í sumar heldur rekstur steinefnafyrirtækisins R8iant. Hann gefur þó endurkomu undir fótinn og horfir til tíu ára afmælistónleika á næsta ári.

Aron Can skaut mörgum skelk í bringu í sumar þegar hann hneig niður og fékk flogakast á tónleikum í Hafnarfirði. Degi síðar lýsti hann atvikinu sem óvæntu og óþægilegu en honum liði vel þrátt fyrir að vita ekki skýringu flogakastsins.

Nokkrum dögum eftir atvikið tilkynnti hann síðan að hann hyggðist taka sér pásu frá giggum til að einbeita sér að rekstri eigin fyrirtækis, R8iant. Ákvörðunin hafði legið fyrir í einhvern tíma en flogið greinilega verið frekari hvati. „Ég held ég sé búinn að keyra mig aðeins of hart út í aðeins of langan tíma,“ sagði hann þá.

Aron Can mætti í Brennsluna til Rikka G og Egils Ploder í morgun og ræddi um ýmislegt, mikla hreyfingu sína og strangt mataræði undanfarin ár, rekstur fyrirtækisins R8iant og mögulega endurkomu í tónlistina.

Sögusagnir um mataræðið ýktar

Aron rakti í viðtalinu heilsuvegferð sína en hann hefur frá Covid lagt gríðarlega mikinn metning í líkamsrækt og er í afar góðu formi. Hann sagði sögusagnir um strangt mataræði sitt þó ýktar. 

„Síðasta sunnudag tók ég góðan svindldag. Borðaði, langar mig að segja, tvo kanilsnúða úr Brauð & co. og ét það sem mig langar að éta, engar áhyggjur af því,“ segir hann.

Undanfarna mánuði hefur nýjasta hugðarefni hans, fyrirtækið R8iant sem selur steinefna- og saltstikur, átt hug hans allan. Hann nýtur nýja lífstílsins eftir áratug í tónlistarbransanum.

„Ég er búinn að vera að spila að meðaltali kannski fjórum til fimm sinnum í viku síðan ég var sextán, það er alveg næs að kúpla sig aðeins út,“ segir hann. 

R8iant er enn á byrjunarstigi og vinnur Aron ýmist upp á skrifstofu eða á lagernum sem sé mikil tilbreyting. Það hafi verið auðvelt að henda sér út í að stofna fyrirtæki.

„Síðan tekur við þetta langa stranga ferli, þetta er algjör þrautseigja og er það ennþá. Maður þarf að vera ,full-on focused',“ segir hann um reksturinn.

„Ókei, ég þarf kannski að taka mér smá pásu frá því að gigga til þess að geta hellt mér út í þetta,“ hafi hann hugsað með sér. Fyrirtækjareksturinn sé full vinna og meira en það.

Skyndilega orðinn gamall

Aron segist ekkert vera að taka upp nýja tónlist þessa dagana. Hann láti nægja að vera með strákunum í IceGuys og þeir hefji bráðum undirbúning yrir tónleika í desember.

„Maður þarf auðvitað að sinna því sem mér finnst ógeðslega gaman því það er gaman allt í gegn. Við erum fimm saman að hlæja, hafa gaman og búa til eitthvað skemmtilegt og fara á dansæfingar bráðum,“ segir hann.

Aron Can og Theo Can.Aron Can

Er einhver dagsetning sem þú horfir á fram í tímann þar sem þú ætlar að byrja að gigga?

„Nei, akkúrat núna er ég slakur. Held kannski mögulega stóra tónleika á næsta ári, tíu ára afmælistónleika,“ segir hann og bætir við: „Allt í einu ,feeling old'.“

„Ég er slakur yfir því núna, held það komi bara í ljós,“ segir hann.

Það væri ógeðslega grillað að gera það ekki, Aron.

„Ég veit, það væri það,“ segir hann og bætir við að Laugardalshöllin væri góður vettvangur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.