Fótbolti

Lykil­menn fjar­verandi hjá Úkraínu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Zinchenko kom ekki með til Íslands. Fleiri leikmenn í úkraínska liðinu glíma við meiðsli og taka ekki þátt í kvöld.
Zinchenko kom ekki með til Íslands. Fleiri leikmenn í úkraínska liðinu glíma við meiðsli og taka ekki þátt í kvöld. Andrzej Iwanczuk/NurPhoto via Getty Images

Úkraínumenn eru án sterkra leikmanna er þeir sækja strákana okkar í íslenska landsliðinu heim á Laugardalsvöll í kvöld. Yahor Yarmolyuk er sá nýjasti á lista leikmanna sem spilar ekki í kvöld.

Yarmolyuk er 21 árs leikmaður Brentford á Englandi og hefur spilað fimm af sjö deildarleikjum liðsins það sem af er vetri. Hann tók ekki þátt á æfingu úkraínska liðsins á Laugardalsvelli í gær og mun ekki spila í kvöld. Annar leikmaður á Englandi, Oleksandr Zinchenko, af mörgum talinn besti leikmaður liðsins, er einnig fjarverandi vegna meiðsla.

„Það hefur áhrif. Hann er mjög áhugaverður bakvörður sem er í raun að stýra spilinu fyrir þá, eins og hann gerði hjá Arsenal og City á sínum tíma. Auðvitað breytir það leikstílnum aðeins. Hann er stór póstur í þeirra liði, taktíkin mun breytast aðeins hjá þeim. En þetta er hörkulið og góða leikmenn og góðan þjálfara,“ sagði Arnar Gunnlaugsson um fjarveru Zinchenko í samtali við Sýn Sport í gær.

Kantmaðurinn Viktor Tsygankov, leikmaður Girona á Spáni, er einnig lykilmaður í sóknarleik Úkraínu en hann glímir við meiðsli. Oleksandr Tymchyk, varnarmaður Dynamo Kiev, og Oleksandr Zubkov, leikmaður Trabzonspor, drógu sig einnig úr landsliðshópnum.

Ísland og Úkraína mætast klukkan 18:45 í kvöld. Leikurinn er sýndur beint á Sýn Sport í opinni dagskrá og hefst útsending klukkan 18:00.


Tengdar fréttir

Ný upplifun fyrir strákana: „Líklega legið þungt á þeim“

Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, segir sína menn vel undirbúna fyrir verkefni kvöldsins er Ísland mætir Úkraínu í mikilvægum leik í undankeppni HM. Uppselt er á völlinn og vera má að meðbyrinn með liðinu skipti sköpum.

„Þetta er mikilvægasti leikurinn í riðlinum“

„Menn eru mjög vel stemmdir. Sérstaklega eftir gengið í síðasta glugga og við að fara að spila fyrir framan fullan Laugardalsvöll. Það er mjög langt síðan síðast en við erum þakklátir fyrir stuðninginn,“ segir Hákon Arnar Haraldsson sem mun leiða íslenska landsliðið út á völl er það mætir Úkraínu í undankeppni HM í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×