Fótbolti

Unnu og færðust nær HM en púaðir af velli og þjálfarinn aldrei verið jafn ó­sáttur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skotar unnu Hvít-Rússa í gær en engin ánægja var með spilamennsku þeirra.
Skotar unnu Hvít-Rússa í gær en engin ánægja var með spilamennsku þeirra. getty/Craig Foy

Þrátt fyrir að skoska karlalandsliðið í fótbolta hafi færst nær sínu fyrsta heimsmeistaramóti í 28 ár var þjálfari þess afar ósáttur eftir sigurinn á Hvíta-Rússlandi í gær.

Skotar unnu leikinn á Hampden Park, 2-1, og eru að minnsta kosti öruggir með sæti í umspili um sæti á HM. Skotland hefur ekki spilað á heimsmeistaramótinu síðan 1998.

Skotland vann einnig Grikkland á fimmtudaginn, 3-1, og fékk því fullt hús stiga í þessum landsleikjaglugga. En samt stökk Clarke ekki bros eftir leikinn gegn Hvíta-Rússlandi.

„Ef þú hefðir sagt fyrirfram að við fengjum sex stig væru allir mjög glaðir,“ sagði Clarke.

„En ég verð að vera heiðarlegur. Ég er mjög, mjög vonsvikinn með liðið mitt. Mér fannst við ekki spila nálægt okkar getu og það var mjög svekkjandi. Við fengum þrjú stig sem huggar okkur en annars klórum við okkur í höfðinu yfir því af hverju við vorum svona slakir.“

Clarke stýrði Skotum í 72. sinn í gær sem er met. Fyrirliði skoska liðsins, Andy Robertson, sagðist aldrei hafa séð Clarke jafn reiðan og í hálfleik gegn Hvíta-Rússlandi.

Stuðningsmenn Skotlands púuðu á liðið eftir leikinn í gær, þrátt fyrir sigurinn mikilvæga.

Skotar mæta Grikkjum í næstsíðasta leik sínum í C-riðli í næsta mánuði. Í lokaleiknum mætast svo Skotland og Danmörk en það verður væntanlega úrslitaleikur um efsta sætið í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×