Fótbolti

„Hefur blundað í manni að taka við félagsliði“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason lét í dag af störfum sem u21 árs landsliðsþjálfari Íslands og tók við sem aðalþjálfari Breiðabliks. 
Ólafur Ingi Skúlason lét í dag af störfum sem u21 árs landsliðsþjálfari Íslands og tók við sem aðalþjálfari Breiðabliks.  Vísir/Hulda Margrét

Ólafur Ingi Skúlason segir aðdragandann að ráðningu sinni sem aðalþjálfari Breiðabliks hafa verið mjög stuttan. Blikarnir hafi fyrst haft samband í gær og hann hafi stokkið spenntur á tækifærið.

„Þetta bar mjög skjótt að, það er í rauninni bara í gærkvöldi sem þeir hafa samband og hjólin fara að snúast“ sagði Ólafur símleiðis við Vísi en baðst undan sjónvarpsviðtals sökum anna.

Áhuginn hefur þá greinilega verið til staðar hjá honum því ráðningin var tilkynnt í dag.

„Já, þetta er auðvitað risastórt starf í fótboltanum á Íslandi og mjög spennandi tækifæri… Það hefur blundað í manni að taka við félagsliði, þó ég hafi verið mjög ánægður hjá KSÍ“ sagði Ólafur en hann lét af störfum sem þjálfari u21 landsliðsins til að taka við Breiðabliki.

Ólafur tekur við starfinu af Halldóri Árnasyni, sem var rekinn frá félaginu aðeins um tveimur mánuðum eftir að samningur hans var framlengdur.

„Stjórn Breiðabliks tekur ákvörðun um það og ég get ekki svarað fyrir það, annað en bara að ég er spenntur að taka við nýju starfi. Fyrsti leikur á fimmtudaginn og ég er á fullu að koma mér inn í hlutina hérna“ sagði Ólafur. 

Breiðablik tekur á móti KuPS frá Finnlandi í Sambandsdeildinni á fimmtudaginn. Á sunnudaginn sækja Blikar svo Stjörnumenn heim í lokaumferð Bestu deildarinnar. 

Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, vildi ekki tjá sig frekar um þjálfaraskiptin þegar Vísir leitaði viðbragða og sagði yfirlýsingu félagsins segja allt sem segja þarf. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×