Enski boltinn

Klopp úti­lokar ekki endur­komu til Liverpool: Það er mögu­legt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp var dýrkaður og dáður í Liverpool og kvaddur með tárum á sínum tíma. Nú hefur hann fundið sér nýtt starf.
Jürgen Klopp var dýrkaður og dáður í Liverpool og kvaddur með tárum á sínum tíma. Nú hefur hann fundið sér nýtt starf. Getty/James Baylis

Jürgen Klopp vill ekki útiloka að hann taki við sem knattspyrnustjóri Liverpool aftur í framtíðinni. Á sama tíma ljóstrar hann upp að hann hafi hafnað Manchester United.

Klopp hætti sem knattspyrnustjóri Liverpool eftir 2023-24 tímabilið og Arne Slot tók við. Slot gerði Liverpool að enskum meisturum á fyrsta tímabili.

Nú hefur Liverpool tapað fjórum leikjum í röð þrátt fyrir mikla eyðslu í nýja leikmenn í sumar og pressan er aukast á hollenska stjóranum.

BBC segir frá viðtali við Klopp þar sem hann ræddi framtíð sína.

Það er í nýjum þætti af hlaðvarpinu „Diary of a CEO“ sem Þjóðverjinn ræðir opinskátt um ýmis málefni.

Í samtalinu er Klopp, sem nú er yfirmaður knattspyrnumála hjá Red Bull, spurður hvort hann gæti hugsað sér að snúa aftur til Anfield sem knattspyrnustjóri.

„Ég hef sagt að ég muni aldrei þjálfa annað lið á Englandi, þannig að það þýðir að ef ég sný aftur, þá verður það til Liverpool,“ svarar Klopp.

„Þannig að já, fræðilega séð er það mögulegt,“ bætir hann við.

Klopp segir einnig að hann sé ekki viss um hvaða púsl þurfi að falla á sinn stað til þess að hann taki annað tímabil á Anfield. Eins og staðan er núna saknar hann þess ekki að vera knattspyrnustjóri.

Hann sagði líka frá því að Manchester United reyndi að á hann árið 2013.

„Þeir reyndu. Þetta var rangur tími, rangt augnablik. Ég var með samning hjá Dortmund og hefði ekki farið, í rauninni ekki til neins annars félags á þeim tíma,“ segir Klopp.

Um ástæðuna fyrir því að hann vildi ekki fara til United segir Þjóðverjinn að það hafi komið upp atriði í samtali hans við félagið sem honum líkaði ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×