Enski boltinn

Sagðir vilja kaupa Man United með hjálp Beckham eða Cantona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham á tímabilinu þegar hann vann þrennuna með Manchester United.
David Beckham á tímabilinu þegar hann vann þrennuna með Manchester United. Getty/ John Peters

Aðilar frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum eru sagðir hafa mikinn áhuga á því að eignast meirihluta Glazers-fjölskyldunnar í Manchester United og plana nú að fá hjálp goðsagna til að koma kaupunum í gegn.

David Beckham hefur þannig verið beðinn um að verða andlit yfirtökutilraunar á Manchester United.

The Mirror og fleiri enskir miðlar segja að Beckham hafi verið beðinn um að verða andlit tilboðsins en hann er ekki sá eini sem kemur til greina. Eric Cantona og Wayne Rooney hafa einnig verið nefndir til sögunnar í þetta sendiherrastarf og það er ljóst að Arabarnir vilja nýta goðsagnir félagsins til að tryggja sér jákvæðan meðbyr frá stuðningsmönnum.

Beckham á þegar hlut í bandaríska félaginu Inter Miami og hefur verið andlit þessa félags frá stofnun.

Samkvæmt fréttum frá Englandi þá var Beckham líka boðið að fjárfesta sjálfur í Manchester United sem gæti verið freistandi fyrir hann.

Glazer-fjölskyldan hefur átt United í tvo áratugi en segist ekki vilja selja hlut sinn nema fá fyrir fimm milljarða punda eða 819 milljarða íslenskra króna.

Það er tvöfalt hærri upphæð en Manchester United er metið á í dag.

Sir Jim Ratcliffe og fyrirtækið hans Ineos Group á í dag 29 prósenta hlut í félaginu og stýrir daglegum rekstri. Þetta gæti samt þýtt að Ratcliffe yrði líka að selja sinn hlut vegna klásúlu í samningi hans við Glazer-fjölskylduna




Fleiri fréttir

Sjá meira


×