Sport

„Svekktir að hafa ekki landað sigri“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari Breiðabliks, var svekktur með úrslitin.
Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari Breiðabliks, var svekktur með úrslitin. Vísir/Anton Brink

Breiðablik gerði markalaust jafntefli við KuPS frá Finnlandi í Sambandsdeildinni í kvöld. Þetta var fyrsti leikur Blika undir stjórn Ólafs Inga Skúlasonar, en hann tók við liðinu á dögunum.

„Fyrst og fremst er ég stoltur af strákunum, það er mikið búið að ganga á. Frammistaðan í dag þótti mér mjög góð. Við erum svekktir að hafa ekki náð að landa þessum sigri. Mér fannst við gera nóg til þess, en svona er boltinn stundum.“ sagði Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari Breiðabliks, svekktur eftir leikinn.

Breiðablik var betri aðilinn í leiknum en liðið fór ekki nægilega vel með færin sín, og tókst ekki að koma boltanum í netið.

„Mér fannst við þéttir í öllum okkar aðgerðum. Við þurfum að gera betur inni á síðasta þriðjung, það er smá hökt á okkur þar. Mér fannst við fá moment þar sem við gátum búið til risa tækifæri, sem við náum ekki.“

„Við hefðum mögulega getað gert aðeins betur á boltann. Við vorum svolítið lengi í gang þar. Heilt yfir vinnslan á liðinu og andinn og orkan var til fyrirmyndar, en það vantar uppá þetta síðasta.“

Ólafur Ingi, þjálfari Breiðabliks, var sáttur með frammistöðu liðsins í kvöld og naut sín á hliðarlínunni í Laugardalsvelli. Næsti leikur Breiðabliks er hreinn úrslitaleikur um þriðja sætið í Bestu deild karla, sem gefur Evrópusæti.

„Það var geggjað að vera á hliðarlínunni. Þetta var virkilega skemmtilegt, og við fengum góðan stuðning. Strákarnir eiga risa hrós skilið fyrir leikinn í dag. Þetta er flottur leikur til að byggja ofan á og gera okkur klára fyrir sunnudaginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×