Enski boltinn

Búið að finna leiðina til að pirra og vinna Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Slot ræðir við Mohamed Salah  en augun verða á sambandi þeirra á næstunni enda Egyptinn langt frá sínu besta.
Arne Slot ræðir við Mohamed Salah  en augun verða á sambandi þeirra á næstunni enda Egyptinn langt frá sínu besta. Getty/Richard Martin-Roberts

Liverpool vann Englandsmeistaratitilinn með sannfærandi hætti á síðustu leiktíð en eftir níu umferðir á þessu tímabili er liðið ekki meðal sex efstu liða.

Fjögur deildartöp í röð og aðeins einn sigur í síðustu sex leikjum í öllum keppnum hafa kallað fram krísuástand á Anfield.

Nýir leikmenn voru keyptir fyrir milljarða í sumar en þeir hafa flestir, ef ekki allir, valdið vonbrigðum.

Knattspyrnustjórinn Arne Slot virðist úrræðalaus og mætir kvartandi og kveinandi í viðtöl eftir hvern tapleikinn á fætur öðrum. Kraftaverkamaðurinn frá Hollandi virðist búinn að týna töfrunum eftir að hafa gert liðið að meisturum á fyrsta tímabili.

Það lítur líka út fyrir að móthetjar Liverpool séu búnir að finna leiðina til að pirra og vinna Liverpool.

Eitt af því sem Slot hefur kvartað yfir er taktík mótherjanna. Þau leggja mikið upp úr því að stoppa flæðið í sóknarleiknum og loka svæðum sem Liverpool vill herja á. Í ofanálag þá beita þau mikið löngum sendingum sem herja á vandræðalega og ótrygga varnarlínu Liverpool sem er óvenju oft illa tengd og illa staðsett.

Það eru einmitt þessar löngu sendingar sem virðast vera að koma Liverpool-mönnum úr jafnvægi. Það er líka óhætt að segja að móthetjarnir herji líka mikið á þessa taktík.

Opta hefur tekið saman tölfræði yfir langar sendingar gegn ákveðnum liðum og þar sker Liverpool sig úr.

Skilgreiningin er á löngum sendingum sem fara yfir 32 metra og eru ekki innköst, köst markverða eða fyrirgjafir.

Mótherjar Liverpool hafa reynt alls 571 slíkar langar sendingar í níu fyrstu leikjunum. Andstæðingar hafa sent yfir 63 langar sendingar að meðaltali í leik.

Það eru 46 langar sendingar niður í næsta lið á listanum sem er Bournemouth (525) og ekkert annað lið er yfir fimm hundruð.

Miðað við það að Liverpool er mun meira með boltann en mótherjarnir (63%) þá er þetta mjög sláandi algengur endir á sóknum andstæðinganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×