Fótbolti

Pedri gæti verið frá keppni til langs tíma

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pedri í leik gegn Real Madríd á dögunum.
Pedri í leik gegn Real Madríd á dögunum. EPA/CHEMA MOYA

Pedri, lykilmaður Spánarmeistara Barcelona og spænska landsliðsins, gæti verið frá keppni næstu mánuðina vegna meiðsla á læri.

Hinn 22 ára gamli miðjumaður er með rifu í vöðva aftan í læri og verður að öllum líkindum frá keppni til langs tíma. Barcelona hefur ekki gefir út hvenær hann muni snúa aftur og segir að endurhæfing hans muni stýra því hvenær Pedri geti spilað á ný.

Færa má rök fyrir því að Pedri hafi spilað allt of mikinn fótbolta undanfarin misseri. Síðan Hansi Flick tók við stjórnartaumum Barcelona hefur Pedri aðeins misst af einum af 73 leikjum liðsins undir stjórn Þjóðverjans. Þá hefur hann spilað 41 leik í röð fyrir Barcelona. Ofan á þetta bætast svo landsleikir.

Ekki er um að ræða fyrsta sinn sem Pedri meiðist aftan á læri. Til að mynda missti hann af þremur mánuðum tímabilið 2021-22 vegna svipaðra meiðsla.

Pedri bætist á langan lista lykilmanna Barcelona sem eru að glíma við meiðsli. Hinir eru Gavi, Robert Lewandowski, Raphinha, Dani Olmo, Joan Garcia og Marc-Andre ter Stegen.

Barcelona er sem stendur fimm stigum á eftir toppliði Real Madríd í La Liga, efstu deild spænska fótboltans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×