Enski boltinn

Scholes hættir og setur einhverfan son sinn í fyrsta sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Scholes og Ryan Giggs unnu marga titla saman með Manchester United.
Paul Scholes og Ryan Giggs unnu marga titla saman með Manchester United. Getty/ John Peters

Manchester United-goðsögnin og knattspyrnusérfræðingurinn Paul Scholes ætlar að minnka við sig í sérfræðingastörfum á næstunni

Scholes sagði frá þessu í hlaðvarpinu „Stick to football“, sem The Telegraph fjallar um. Yngsti sonur Scholes, hinn tvítugi Aiden, er með einhverfu og þarfnast mikillar umönnunar frá foreldrum sínum.

Scholes hefur ekki starfað við neina leiki fyrir TNT Sports á tímabili.

„Öll vinnan sem ég sinni núna snýst um rútínuna hans. Hann hefur frekar strangar rútínur á hverjum einasta degi, svo ég ákvað að allt sem ég geri ætti að vera í kringum Aiden,“ sagði Paul Scholes í hlaðvarpinu.

Fyrrverandi miðjumaðurinn og eiginkona hans, Claire, skildu árið 2020. Scholes segir að þau deili umönnun sonar síns.

„Við höfum hann þrjú kvöld hvort og móðir Claire hefur hann á föstudögum. Við gerum alltaf það sama með honum því hann veit ekki hvaða dagur vikunnar er. En hann veit út frá því sem við gerum hvaða dagur er,“ sagði Scholes.

Paul Scholes er einn besti miðjumaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Hann skoraði 150 mörk í 718 leikjum með Manchester United frá 1993 til 2013 og vann 25 titla með félaginu, þar af ellefu Englandsmeistaratitla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×