Enski boltinn

Liverpool féll síðast þegar liðið tapaði fimm í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Virgil van Dijk er fyrirliði Liverpool og er einn af leiðtogum liðsins sem þurfa að rífa liðið upp úr þessari lægð.
 Virgil van Dijk er fyrirliði Liverpool og er einn af leiðtogum liðsins sem þurfa að rífa liðið upp úr þessari lægð. Getty/Crystal Pix

Liverpool tekur á móti Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Aston Villa er á miklu skriði en sömu sögu er ekki hægt að segja af Englandsmeisturnum.

Liverpool hefur tapað fjórum deildarleikjum í röð og sex af síðustu sjö leikjum í öllum keppnum.

Svo slæmt er gengið að tapist leikurinn í kvöld eru það aðeins stuðningsmenn Liverpool á áttræðisaldri sem hafa upplifað annað eins hörmungargengi.

Liverpool hefur nefnilega ekki tapað fimm deildarleikjum í röð í meira en sjötíu ár eða síðan haustið 1953.

Tímabiið 1953-54 tapaði Liverpool fimm deildarleikjum í röð frá 29. ágúst til 12. september 1953. Það endaði með 1-1 jafntefli á heimavelli á móti Úlfunum. Áður hafði liðið tapað fyrir Bolton, Newcastle, Preston, Wolves og Tottenham.

Liverpool vann aðeins 9 af 42 leikjum sínum og féll úr deildinni vorið eftir. Liverpool var í B-deildinni næstu átta tímabil en hefur alltaf spilað í efstu deild síðan að liðið komst aftur upp vorið 1962.

Á þessu tímabili hefur Liverpool tapað fjórum deildarleikjum í röð en öllum leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni frá og með 27. september síðastliðnum. Mótherjarnir hafa verið Crystal Palace, Chelsea, Manchester United og Brentford.

Liverpool vann fimm fyrstu deildarleiki sína og er því með fimmtán stig en liðið er dottið niður í sjöunda sæti og gæti dottið enn neðar tapist leikurinn á Anfield í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20.00 að íslenskum tíma og verður sýndur beint á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×