Fótbolti

Við­tökurnar á Anfi­eld munu ekki breyta neinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Trent Alexander-Arnold hefur verið að glíma við meiðsli en er klár í að mæta uppeldisfélagi sínu.
Trent Alexander-Arnold hefur verið að glíma við meiðsli en er klár í að mæta uppeldisfélagi sínu. EPA/Mariscal

Trent Alexander-Arnold, hægri bakvörður Real Madríd, segir að viðtökurnar sem hann muni fá á Anfield þegar lið hans mætir Rauða hernum muni ekki breyta tilfinningum hans í garð Liverpool.

Á morgun, þriðjudag, tekur Liverpool á móti Real Madríd í Meistaradeild Evrópu. Verður leikurinn sýndur beint á Sýn Sport Viaplay.

Verður það í fyrsta sinn sem Trent snýr aftur til Bítlaborgarinnar eftir að hafa yfirgefið Liverpool og gengið í raðir spænska stórliðsins Real Madríd fyrir yfirstandandi tímabil. 

Var hann gagnrýndur af sumu stuðningsfólki Liverpool fyrir að leyfa samningi sínum að renna út til að hann gæti gengið frítt í raðir Real. Spænska félagið endaði þó á að borga smáupphæð til að hægri bakvörðurinn væri með leikheimild á HM félagsliða sem fram fór síðasta sumar.

„Sama hvað þá munu tilfinningar mínar í garð Liverpool ekki breytast,“ sagði hinn 27 ára gamli Trent er hann var spurður út í stórleik morgundagsins.

„Ég á minningar sem munu endast mér alla lífstíð og sama hverjar móttökurnar verða þá mun það ekki breytast.“

Alls lék Trent 354 leiki fyrir uppeldisfélagið. Sá síðasti var þegar liðið fékk Englandsmeistaratitilinn í hendurnar.

Meistaradeildarmessan hefst klukkan 19.30 annað kvöld á Sýn Sport. Útsending frá Anfield hefst klukkan 19.50 á Sýn Sport Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×