Erlent

„Versta mar­tröð Trumps“ kjörin borgar­stjóri New York

Atli Ísleifsson skrifar
Zohran Mamdani ávarpaði meðal annars Donald Trump Bandaríkjaforseta í ávarpi sínu í nótt.
Zohran Mamdani ávarpaði meðal annars Donald Trump Bandaríkjaforseta í ávarpi sínu í nótt. EPA

Demókratinn Zohran Mamdani var í nótt kjörinn nýr borgarstjóri New York-borgar og verður hann fyrsti músliminn til að taka við borgarstjórastólnum í þessari stærstu borg Bandaríkjanna. Hann hefur lýst sjálfum sér sem lýðræðislegum sósíalista sem og „verstu martröð Trumps“ Bandaríkjaforseta.

Demókratar unnu sigra víða um Bandaríkin í gær. Þannig tryggðu frambjóðendur þeirra sér einnig sigra í ríkisstjórakosningum bæði í Virginíu og New Jersey. Abigail Spanberger er þannig nýr ríkisstjóri Virginíu og Mikie Sherrill í New Jersey.

Þegar búið var að telja rúmlega 90 prósent atkvæða í borgarstjórakosningunum í New York var Mamdani með 50,4 prósent atkvæða og Andrew Coumo, sem bauð sig fram sem óháður en naut meðal annars stuðnings Trumps og auðjöfursins Elon Musk, 41,5 prósent. Frambjóðandi Repúblikana, Curtis Sliwa, hlaut mun minna fylgi.

Að auki kosið í hin ýmsu embætti vítt og breitt um Bandaríkin. Í Kaliforníu var einnig kosið um „tillögu 50“ sem var samþykkt var og ríkisstjórinn Gavin Newsom hefur barist fyrir. Samþykkt hennar gerir Demókrötum kleift að breyta kjördæmaskipan í ríkinu þannig að hún gagnist þeim betur í næstu kosningum heldur en fyrri skipan gerði. Þetta hafa Repúblikanar markvisst gert í fjölmörgum ríkjum þar sem þeir eru við völd, en Demókratar hafa verið tregari til þess að hagræða kjördæmunum á þennan hátt.

New York verður ljósið

Hinn 34 ára Mamdani, sem var nær óþekktur fyrir fáeinum mánuðum, ávarpaði stuðningsmenn sína eftir að fyrir lá að hann yrði nýr borgarstjóri New York, sá 111. í röðinni. „Á þessum tíma pólitísks myrkurs, þá verður New York ljósið.“ Hann sagði kjósendur hafa veitt sér skýrt umboð til breytinga. 

Mamdani beindi einnig orðum sínum að Trump forseta sem hótaði í kosningabaráttunni að skrúfa fyrir fjármagn frá alríkinu ef Mamdani yrði kjörinn. Forseti hefur ekki valdheimildir til þess heldur er það á valdi þingsins. 

 „Donald Trump, ég veit að þú ert að horfa. Hækkaðu í tækinu því við viljum draga slæma fasteignabaróna til ábyrgðar. Því að „Donald Trump-týpurnar“ í borginni okkar líður orðið allt of vel að misnota leigjendur sína,“ sagði Mamdani.

Áfram hélt Mamdani. „Ef einhver getur sýnt landinu, sem Donald Trump hefur brugðist, hvernig á að sigra hann, þá er það borgin sem tryggði uppgang hans. Og ef það er einhver leið til að hræða einvald, þá er það með því að rífa niður það sem gerði honum kleift að tryggja sér völd.“

Trump forseti birti færslu á samfélagsmiðli sínum Truth Social í nótt þar sem sagði „NÚ BYRJAR ÞAГ, án þess að skýra nánar hvað hann átti við. 

Kom eins og stormsveipur inn á hið pólitíska svið

Mamdani hefur heitið því að auka skatta á auðmenn borgarinnar, tryggja að frítt verði í strætó, ná stjórn á leigumarkaðnum og sömuleiðis koma á matvöruverslunum í samfélagseigu.

Kosningabarátta Mamdani hefur vakið mikla athygli en hann hefur notast við samfélagsmiðla og grín til að ná til kjósenda. Frumleg myndskeið hans þar sem hann kynnti skýra stefnu sína náðu mörg gríðarlegri dreifingu á samfélagsmiðlum svo athygli vakti. Kosningabaráttan hans var háð að stærstum hluta án fjármagns frá lobbíistum eða auðmönnum.

Í kosningabaráttunni sagði hann að hann gerði sér grein fyrir því að margir óttuðust að 33 ára maður myndi stýra New York-borg. „Ég hef ákveðið að bregðast við þessu. Á morgun verð ég 34 ára,“ sagði Mamdani í síðasta mánuði.

Stuðningsmenn Zohran Mamdami fögnuðu í nótt. EPA

Flutti til Bandaríkjanna sjö ára

Zohran Kwame Mamdani er fæddur árið 1991 í Kampala í Úganda. Móðir hans er Mira Nair, þekkt kvikmyndagerðarkona og faðir hans, Mahmood Mamdani, er þekktur prófessor í nýlendufræðum og mannfræði við Columbia-háskóla. Foreldrarnir eru báðir fæddir á Indlandi og er móðirin hindúatrúar og faðirinn múslimi. Zohran er sömuleiðis múslimi en hann er eina barn foreldra sinna.

Fjölskyldan flutti frá Úganda til Suður-Afríku, en þegar Zohran var sjö ára flutti fjölskyldan til Bandaríkjanna og settist að í New York. Hann stundaði svo nám í afrískum fræðum og kom fram sem rappari undir listamannsnafninu Mr. Cardamom. Hann bauð sig svo fram og náði sæti á ríkisþingi í New York fyrir borgarhlutann Astoria í Queens.

Mamdani tilkynnti í október á síðasta ári að hann myndi bjóða sig fram til borgarstjóra í New York og var að lokum útnefndur frambjóðandi Demókrataflokksins.

Hann mun nú taka við embætti borgarstjóra New York-borgar í ársbyrjun 2026. Hann tekur við embættinu af Demókratanum Eric Adams sem sætir ákæru fyrir spillingu.


Tengdar fréttir

Ítrekar hótanir sínar og hvetur íbúa til að kjósa Cuomo

Íbúar New York ganga að kjörborðinu í dag til að velja sér nýjan borgarstjóra. Skoðanakannanir benda til þess að Demókratinn Zohran Mamdani muni bera sigur úr býtum, þrátt fyrir ítrekaðar hótanir Bandaríkjaforseta gegn honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×