Innlent

Ó­breytt klukka stöðutaka gegn vísindum og lýðheilsu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og svefnsérfræðingur, segir það hafa verið mikil vonbrigði að stjórnvöld hafi ekkert gert með niðurstöðu starfshóps um klukkuna.
Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og svefnsérfræðingur, segir það hafa verið mikil vonbrigði að stjórnvöld hafi ekkert gert með niðurstöðu starfshóps um klukkuna. Vísir/Bjarni

Óbreytt klukka er stöðutaka gegn vísindum og lýðheilsu að sögn Erlu Björnsdóttur sálfræðings og sérfræðings um svefn. Hún eygir von um að stjórnvöld taki ákvörðun um að samræma klukkuna gangi sólar í ljósi þess að slík leiðrétting sé nú komin á dagskrá grænlenska þingsins, Inatsisartut.

Árið 2022 flýttu Grænlendingar klukkunni vegna viðskiptalegra sjónarmiða en nú vilja þeir endurskoða málið vegna þeirra neikvæðu áhrifa á heilsu sem þeir hafa fundið fyrir.

„Það er mikil óánægja í Grænlandi. Foreldrar eru að upplifa að börnin sofi ekki eins vel og mikill þrýstingur er í gangi að snúa þessu til baka. Ég hef einmitt verið að fá fyrirspurnir frá grænlenskum fjölmiðlum því þeir hafa fylgst með þessari umræðu hér og þeim starfshópi sem var skipaður á sínum tíma til að taka á kvörðun um þetta mál en því miður var ekki tekið mark á niðurstöðu þess hóps en þetta gefur okkur byr í seglin að taka umræðuna upp aftur,“ segir Erla.

Morgunbirta lykilatriði í stillingu líkamsklukku

Erla segir ótal margt hafa breyst síðan Alþingi ákvað árið 1968 að festa klukkuna á miðtíma.

„Á þessum tíma vorum við bara ekki með þá þekkingu sem við búum yfir í dag á grunnvísindum um líkamsklukkuna og hversu mikilvægt það er að vera í takti við sína innri klukku og þar er morgunbirtan sterkasta merkið og mikilvægasta.“

Nú sé vitað að samspil morgunbirtu og hormónakerfis stilli líkamsklukkuna.

„Það er þetta Melantónin, myrkurhormón líkamans, við byrjum að framleiða á kvöldin þegar það verður dimmt og það gerir okkur syfjuð. Við þurfum birtuna til að tempra Melantónínið og fá orkuna og ná að vakna. Í svartasta skammdeginu fáum við ekki birtu fyrr en undir hádegi en leiðrétting klukkunnar myndi þá stytta þann tíma verulega og það sem gerist þegar maður er í misræmi við innri klukku er að það hefur áhrif á svefninn. Svefnfasinn, hann seinkar, bæði er erfiðara að vakna á morgnanna og koma sér í gang en líka erfiðara að sofna á réttum tíma á kvöldin.

Fengjum sex vikur af meiri morgunbirtu

Hún leggur til að færa klukkuna aftur um klukkustund.

„Þetta myndi gefa okkur mun meiri morgunbirtu yfir dimmasta tíma ársins, svona um sex vikur sem við myndum vakna í birtu aukalega.“

Óhófleg svefnlyfjanotkun gæti tengst klukkuskekkju

Svefnvandi sé útbreiddur hérlendis.

„Við vitum að svefnvandi er algengur á Íslandi. Við erum með gríðarlega notkun svefnlyfja, miklu meira en nágrannaþjóðirnar og mögulega er þessi klukkuskekkja ein ástæðan fyrir því.“

Auðvelt að leiðrétta klukkuna

Það hafi því verið vonbrigði þegar ekkert var gert með niðurstöðu starfshóps sem hún sat í. Óbreytt ástand sé stöðutaka gegn vísindum og lýðheilsu.

„Fyrir mér er þetta bara mjög einfalt við getum bara breytt aftur. Þeir sem ráða geta tekið þá ákvörðun að leiðrétta klukkuna og leyfa okkur bara að vera í takti við sólina.“

Í sjónvarpsfréttinni er síðan að finna spjall fréttastofu við fólk í miðbænum sem var beðið um álit sitt á mögulegri klukkubreytingu. Ekki stóð á svörum en skoðanirnar á málinu voru hinar ýmsu.


Tengdar fréttir

Segir það eina rétta að breyta klukkunni

Í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 í gær var farið yfir svefnvenjur Íslendinga, hvort seinka eigi klukkunni hér á landi og hversu mikill kostnaður sé fólginn í vandamálum sem tengjast svefni.

Klukkunni verður ekki seinkað

Klukkunni verður ekki seinkað um eina klukkustund hér á landi líkt og komið hefur til umræðu öðru hvoru undanfarin ár.

Tveir þriðju hlynntir klukkutíma seinkun

Frestur til að skila umsögnum um tillögur að breyttum staðartíma á Íslandi rennur út eftir rúma viku. Hingað til eru flestir á því að seinka skuli klukkunni. Sumir leggja til tilraunaverkefni á Vestfjörðum eða að flýta klukkunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×