Innlent

Breytingar á húsaleigulögum sam­þykktar til laga

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Inga Sæland er félags- og húsnæðismálaráðherra.
Inga Sæland er félags- og húsnæðismálaráðherra. Vísir/Anton Brink

Frumvarp um breytingu á húsleigulögum voru samþykkt til laga á Alþingi í dag. Meðal breytinganna er afnám undanþágu leigusala frá upplýsingarétti almennings.

Frumvarpinu, sem lagt var fram af Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra, er ætlað að stuðla að aukinni langtímaleigu og fyrirsjáanleika um breytingar á leigufjárhæð. 

Með nýju lögunum verður óheimilt að semja um að leigufjárhæð í tímabundnum samningum taki breytingum á fyrstu tólf mánuðum samningsins. Þá verða leigusalar sem skráðir eru í leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) ekki undanþegnir upplýsingarétti almennings en hingað til hafa þeir verið undanþegnir rétti almennings til aðgangs að gögnum.

Einnig hefur skyldan til að skrá leigusamninga í leiguskrá HMS verið útvíkkuð á þann máta að allir sem leigja út húsnæði til íbúðar þurfa að skrá samninginn. Áður þurfti einungis að skrá leigusamningana ef leigusali var að leigja út tvær eða fleiri íbúðir. 

Að lokum verður skattaívilnun vegna leigutekna leigusala háð skráningu leigusamnings í leiguskrá.

„Lögin auka réttarvernd og húsnæðisöryggi leigjenda sem og upplýsingar um leigumarkaðinn. Þau marka þannig tímamót og sýna hvernig við í ríkisstjórninni ætlum og erum að taka húsnæðismálin föstum tökum,“ er haft eftir Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, í tilkynningu frá stjórnarráðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×